Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Áslaug næstyngsti ráðherra sögunnar
05.09.2019 - 18:03
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verður næstyngsti ráðherra Íslands og yngst kvenna til að taka við ráðherraembætti í sögu landsins. Hún var útnefnd sem nýr dómsmálaráðherra á fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins í dag. Áslaug er 28 ára og 9 mánaða í dag en hún verður 29 ára í lok nóvember.
Yngsti ráðherra Íslands er enn Eysteinn Jónsson sem var aðeins 27 ára gamall og 11 mánaða gamall þegar hann tók við embætti fjármálaráðherra árið 1934 fyrir Framsóknarflokkinn. Þá sat hann í ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sem var kölluð Stjórn hinna vinnandi stétta. Það var samsteypustjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks.
Þriðji yngsta manneskjan til þess að taka við embætti ráðherra er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Hún var 29 ára og 2 mánaða gömul þegar hún tók við embætti ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar árið 2017.
Aðrir ráðherrar hafa verið eldri en 31 árs þegar þeir tóku við embætti.
Yngstu ráðherrar Íslandssögunnar
- Eysteinn Jónsson - 27 ár og 11 mánuðir
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, 28 ár og 9 mánuðir
- Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, 29 ár og 2 mánuðir
- Vilmundur Gylfason, 31 ár og 2 mánuðir
- Katrín Jakobsdóttir, 33 ár
- Steingrímur J. Sigfússon, 33 ár og 2 mánuðir
- Áki Jakobsson, 33 ár og 3 mánuðir
- Björt Ólafsdóttir, 33 ár og 10 mánuðir
- Svavar Gestsson, 34 ár og 4 mánuðir
- Katrín Júlíusdóttir, 34 ár og 6 mánuðir
- Einar Arnórsson, 35 ár og 5 mánuðir
Fréttin hefur verið uppfærð.