Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áslaug: Haraldur áfram ríkislögreglustjóri

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, átti fund með Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra, í morgun. Hún segist ætla að gefa sér nokkrar vikur til að hugsa málið en engin breyting verði á högum Haraldar - hann verði áfram ríkislögreglustjóri.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í Stjórnarráðinu í morgun þar sem málefni ríkislögreglustjóra voru meðal annars rædd.

Gustað hefur um Harald Johannessen síðustu vikur en átta af níu lögreglustjórum lýstu því yfir í gær að þeir treystu honum ekki lengur og Landssamband lögreglumanna tók í sama streng í yfirlýsingu í gær.  Þá hafa bæði formaður allsherjarnefndar og formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar Alþingis kallað eftir aðgerðum strax. 

Áslaug Arna ræddi stuttlega við fréttamenn í morgun. Þar sagðist hún hafa átt fund með Haraldi í morgun og hún bindi vonir við að það samtal haldi áfram. Hún myndi ekki tjá sig um hvað hefði farið á milli hennar og Haraldar.  Áslaug sagðist hafa sett af stað vinnu strax í ráðuneytinu og að bréf hefði verið sent til allra hlutaðeigandi, meðal annars ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og lögreglumanna.  Og það væri von hennar að þessari vinnu í ráðuneytinu lyki fljótt og myndi leiða til þess að hægt væri að gera skipulagsbreytingar innan lögreglunnar innan örfárra vikna.

Aðspurð hvort Haraldi væri stætt áfram sem ríkislögreglustjóra sagði Áslaug að fyrst og fremst yrði að tryggja að starfsemi lögreglunnar væri tryggð þrátt fyrir vantraustsyfirlýsingu lögreglustjóranna í gær. Þegar Áslaug var spurð að því hvort Haraldur hefði sjálfur léð máls á því að víkja svaraði Áslaug því neitandi.

Ítarlegra viðtal við Áslaugu er væntanlegt innan skamms.