Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Áslaug biðst afsökunar á ummælum sínum

23.09.2015 - 12:41
Mynd með færslu
Áslaug Friðriksdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur beðist afsökunar á ummælum sem hún lét falla á miklum hitafundi borgarstjórnar í gær. Hún segist á Facebook-síðu sinni hafa átt að velja orð sín af meiri kostgæfni og vanda betur til síns mál.

Hart var deilt á meirihlutann í borgarstjórn í gær og voru þung orð látin falla. Ummæli Áslaugar hafa vakið nokkra athygli en hún sagði: „Segjum að nasistar kæmust hér til valda og þeir ákveddu að setja einhvers konar bann á hluti, fara í gegnum innkaupastefnuna og segja að þetta sé einhvern veginn þannig að hér sé verið að brjóta á fólki. Þið eruð í raun að gera þetta en þið teljið að þið séuð ekki nasistar því þið eruð góða fólkið," sagði Áslaug og bætti við. „Mér finnst þið sýna svo ógeðslega lítinn skilning á því sem þið gerðuð fyrir viku."

Þessi ummæli féllu í grýttan jarðveg. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, spurði á Facebook-síðu sinni hvort þetta væri ekki of langt gengið.

Áslaug sagði á Facebook-síðu sinni um miðnætti í gærkvöld að hún hefði alls ekki verið að líkja meirihlutanum við nasista. „ Ég varð fyrir vonbrigðum með það hvernig meirihlutinn hagaði málflutningi sínum. En svona svo það sé á hreinu þá var ég auðvitað ekki að kalla meirihlutann nasista. Ég notaði nasistana sem dæmi um af hverju virðing fyrir lögum og reglu skiptir máli. Lög eru ekki til þess að vera bara stíf og leiðinleg og koma í veg fyrir falleg mál. Þau eru öryggisventill – einmitt sett til að gera vondu fólki erfiðara fyrir ef það kemst til valda,“ skrifaði Áslaug.

Í morgun baðst borgarfulltrúinn síðan afsökunar á orðum sínum. „Ég var ekki að líkja meirihlutanum við nasista en það hefur misskilist og það þykir mér mjög leitt. Ég vil því biðjast afsökunar á því að hafa ekki valið orð mín af meiri kostgæfni og vandað betur til máls míns.“

Á borgarstjórnarfundi í gær fjallaði ég um alvarleika þess viðhorfs að telja sig æðri lögum í skjóli þess að um góðan má...

Posted by Áslaug Friðriksdóttir on 23. september 2015

Borgarstjórn samþykkti að draga til baka ákvörðun meirihlutans um að hætta að kaupa vörur frá Ísrael. Minnihlutinn sakaði meirihlutann þó um klækjastjórnmál og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ætti að segja af sér vegna málsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV