Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áslaug Arna verður dómsmálaráðherra

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður, verður dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti þingflokki Sjálfstæðisflokksins þetta rétt í þessu.

„Áslaug er einn efnilegasti stjórnmálamaður Íslands. Hún hefur komið af miklum krafti inn í þingið og stýrt af öryggi og festu stórri þingnefnd,“ sagði Bjarni þegar hann tilkynnti valið á nýjum ráðherra.

Samþykkt einróma

Tillagan um Áslaugu var samþykkt einróma í þingflokknum í dag, samkvæmt heimildum fréttastofu. Áslaug Arna er stödd erlendis en hún var þátttakandi á fundinum í gegnum síma.

Bjarni sagði valið hafa verið erfitt enda hafi þó nokkrir þingmenn komið til greina. Hann segir kynjasjónamið hafa verið tekin til greina. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur gengt því embættinu samhliða því að vera iðnaðar, nýsköpunar og ferðamálaráðherra síðan í vor. Það var aðeins tímabundin ráðstöfun og þess vegna ljóst að nýr ráðherra yrði skipaður úr röðum Sjálfstæðismanna fyrir þingveturinn.

Þórdís Kolbrún tók við embættinu eftir að Sigrírður Á. Andersen sagði af sér í vor eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði um að ranglega hafi verið staðið að skipan dómara í Landsrétt.

29 ára lögfræðingur

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fæddist árið 1990 og er því á 29. aldursári. Hún stundaði nám við Verslunarskóla Íslands og nam svo lögfræði við Háskóla Íslands. Hún lauk meistaraprófi í lögfræði árið 2017.

Hún settist fyrst á Alþingi árið 2016 og hefur gengt formennsku í hinum ýmsu fastanefndum Alþingis og gengt formennsku í alþjóðadeildum þingsins. Nú síðast hefur hún gengt stöðu formanns utanríkismálanefndar Alþingis og staðið í ströngu, meðal annars við innleiðingu þriðja orkupakkans á þinginu.