Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Asíubúar kaupa upp andlitsgrímur í Reykjavík

28.01.2020 - 12:40
epa08168539 A fully protected nurse takes a phone call beside her ambulance in Wuhan, Hubei province, China, 26 January 2020 (issued 27 January 2020). According to media reports, Wuhan is widely considered as the origin point of the coronavirus outbreak. The virus outbreak has so far killed at least 56 people with around 2,000 infected, mostly in China.  EPA-EFE/YUAN ZHENG CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
„Þetta er pínu ástand og allir birgjar sem ég hef náð tali af eru að reyna að fá grímur sendar með flugi,“ segir Skúli Skúlason, lyfsali hjá Íslandsapóteki á Laugavegi. Nánast allar andlitsgrímur eru uppseldar hjá apótekinu og eru það í langflestum tilvikum ferðamenn frá Asíu sem kaupa nokkur hundruð grímur í einu til að fara með heim.

Mikill viðbúnaður er í Asíu vegna kórónuveirunnar og hafa andlitsgrímur selst upp í Kína.

Apótekarar í höfuðborginni finna vel fyrir áhuga ferðamanna frá Asíu á andlitsgrímum og þær hafa hreinlega verið rifnar úr hillunum á síðustu dögum. „Þetta er búið að vera hálfgert ástand frá því á fimmtudag. Þá byrjar þetta. Við seldum kannski tíu svona andlitsgrímur í mánuði en höfum selt fimmtán hundruð í dag,“ segir Skúli Skúlason, lyfsali hjá Íslandsapóteki. 

Hann segir að 99 prósent þeirra sem kaupi slíkar andlitsgrímur séu ferðamenn frá Asíu sem séu að birgja sig upp fyrir heimferðina. „Um helgina horfðum við í augun á tárvotum ferðamönnum sem voru að fara í flug og fengu ekki grímu. Þeir taka þessu mjög alvarlega.“

Sömu sögu var að segja af útibúi Lyfju í miðborginni. Þar höfðu selst fleiri þúsund andlitsgrímur. Ekki væri bara ein gríma keypt heldur voru dæmi um að einn hefði keypt tíu kassa með fimmtíu andlitsgrímum eða 500 grímur til að fara með heim.