
Asíubúar kaupa upp andlitsgrímur í Reykjavík
Mikill viðbúnaður er í Asíu vegna kórónuveirunnar og hafa andlitsgrímur selst upp í Kína.
Apótekarar í höfuðborginni finna vel fyrir áhuga ferðamanna frá Asíu á andlitsgrímum og þær hafa hreinlega verið rifnar úr hillunum á síðustu dögum. „Þetta er búið að vera hálfgert ástand frá því á fimmtudag. Þá byrjar þetta. Við seldum kannski tíu svona andlitsgrímur í mánuði en höfum selt fimmtán hundruð í dag,“ segir Skúli Skúlason, lyfsali hjá Íslandsapóteki.
Hann segir að 99 prósent þeirra sem kaupi slíkar andlitsgrímur séu ferðamenn frá Asíu sem séu að birgja sig upp fyrir heimferðina. „Um helgina horfðum við í augun á tárvotum ferðamönnum sem voru að fara í flug og fengu ekki grímu. Þeir taka þessu mjög alvarlega.“
Sömu sögu var að segja af útibúi Lyfju í miðborginni. Þar höfðu selst fleiri þúsund andlitsgrímur. Ekki væri bara ein gríma keypt heldur voru dæmi um að einn hefði keypt tíu kassa með fimmtíu andlitsgrímum eða 500 grímur til að fara með heim.