Ásdís Rán stjórnaði viðburðum fyrir svikamyllu

22.11.2019 - 15:08
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Ásdís Rán Gunnarsdóttir fyrirsæta skipulagði viðburði fyrir rafmyntarfyrirtækið OneCoin sem sætir lögreglu- og skattrannsóknum víða um heim. Stofnandi fyrirtækisins Ruja Ignatova er náin vinkona Ásdísar til tíu ára. Ásdís segist ekki líta svo á að OneCoin sé svikamylla. Málið hefur vakið mikla athygli í erlendum fjölmiðlum. Í viðtali við RÚV vill Ásdís ekki svara því hvort hún hafi fjárfest í OneCoin en segist alla vega ekki hafa tapað peningum á því.

Ruja hvarf fyrir tveimur árum og hefur ekkert spurst til hennar síðan. Konstatin, bróðir Ruja, hefur játað á sig peningaþvætti og fjársvik, að því er kemur fram í frétt Breska ríkisútvarpsins. Þá segir að rannsakendur telji að allt að 600 milljarðar íslenskra króna hafi safnast frá fólki um allan heim og er fyrirtækinu líkt við Ponzi-svindl. Konstantin var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles í Bandaríkjunum í mars. Hann hefur gert sátt við yfirvöld og var það gert opinbert fyrr í mánuðinum.  

Þá segir einnig á vef BBC að bandarískur lögmaður, Mark Scott, hafi í gær verið dæmdur fyrir aðild sína að rafmyntarsvikunum. Scott sagðist í réttarhöldunum ekki hafa vitað af því að rafmyntin OneCoin væri einskis virði og að hann hafi einungis gert það sem Ruja hafi fyrirskipað. 

DV greinir frá því í dag að Ásdís Rán tengist Roju vináttuböndum.

Náttúrulega á grárri línu

Ásdís Rán segist ekki líta svo á að þetta sé svikamylla. „Það er náttúrulega allur svona píramídabissness á einhverri grárri línu. Ég skil vel að það séu skattrannsóknir því þetta sprakk út og varð alveg gífurlega stórt á stuttum tíma og mikið, mikið af peningum í gangi þarna,“ segir Ásdís Rán.

Skjáskot af búlgarska fjölmiðlinum blitz.bg
Skjáskot af búlgarska fjölmiðlinum blitz.bg Mynd: blitz.bg - RÚV

Hver var aðkoma þín að þessu fyrirtæki?

„Við erum bestu vinkonur ég og Ruja og höfum staðið við hliðina á hvor annarri síðustu tíu árin,“ segir Ásdís. Þær hafi átt fyrirtækið Icequeen saman.

Sagt var frá því í Vísi fyrir fjórum árum að Ásdís væri andlit OneCoin.

Ekki beint andlit OneCoin

„Ég get nú ekki beint sagt að ég hafi verið andlit fyrirtækisins en ég var einhvern tímann representuð á þann hátt af því að ég var oft kynnir á stórum samkomum með aðalsölufólki OneCoin út um allan heim. Ég var svona að vesenast uppi á sviði hér og þar. Ég sá líka um að setja upp viðburði fyrir fyrirtækið og svoleiðis,“ segir Ásdís.

Fjárfestir þú í þessu?

„Heyrðu, ég ætla ekki að svara þessari spurningu,“ segir Ásdís Rán. 

En þú getur ekki sagt hvort þú hafi tapað einhverjum peningum á þessu?

„Ég tapaði engum peningum á þessu,“ segir Ásdís. Hún segir vita um fullt af fólki sem hafi orðið milljónamæringar á því að selja fólki OneCoin. Ruja hafi grætt háar fjárhæðir og hafi orðið meira en milljarðamæringur. Peningunum hafi hún eytt í snekkjur, hús og fleira.

Hafa einhver yfirvöld, skatta- eða lögreglu-, haft samband við þig út af málinu?

„Nei, það er fullt af fólki búið að hafa samband við mig og verið að leita að henni. Hún nátturulega hvarf sporlaust. En ég er alveg jafnmikið að leita að henni eins og aðrir. Það er ekki búið að gera skattrannsókn á mér og þess er ekki þörf. Ég tengist þessu ekki fjárhagslega,“ segir Ásdís Rán.

DV greinir frá því að fólk hafi gengið í hús hér á landi í fyrra og reynt að fá fólk til þess að kaupa OneCoin. Ásdís segir það ekki hafa tengst henni. Fréttastofa RÚV hafði samband við lögreglu höfuðborgarsvæðisins og spurði hvort málið hefði komið þar inn á borð en þar könnuðust menn ekki við málið.

Var í miklu sambandi við Ruju rétt áður en hún hvarf

Hvarf Ruju hefur vakið mikla athygli og hefur BBC gert hlaðvarpsþætti sem heita Horfna rafmyntardrottningin.

Ásdís segist hafa verið í miklum samskiptum við Ruju í Búlgaríu síðustu tvo mánuðina áður en hún hvarf. Sagði hún eitthvað við þig sem gaf til kynna að hún ætlaði að láta sig hverfa?

„Ég er búin að fara í gegnum hausinn á mér hundrað sinnum. Hún var á þessum tíma orðin svolítið taugatrekkt. Hún var búin að vera að fá alls konar hótanir og vesen og hún var orðin svolítið hrædd. Þetta kemur ekkert brjálæðislega á óvart. En ég bjóst ekki við að hún myndi bara láta sig hverfa án þess að láta mig vita. En að sjálfsögðu get ég ekki sagt þetta, því ef fólk ætlar að láta sig hverfa, þá bara lætur það sig hverfa,“ segir Ásdís.

Það veit enginn meira en ég

Þannig að þú hefur ekkert frétt af henni, hvernig henni farnast?

„Nei, það eru alls konar sögur í gangi en það veit enginn neitt meira en ég. Ég er í sambandi við fjölskyldu hennar og þau vita ekkert meira en ég. Það veit enginn neitt. Þannig að þetta er alveg solid hvarf,“ segir Ásdís Rán.

Ásdís Rán verður jafnframt gestur Síðdegisútvarpsins á Rás tvö í dag.