Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ásakanir ganga á víxl

20.06.2019 - 10:23
Norska olíuskipið Front Altair á Ómanflóa í morgun. - Mynd: EPA-EFE / IRIB NEWS
Það hefur hitnað í kolunum í samskiptum Bandaríkjanna og Írans á síðustu dögum. Bandaríkjamenn saka Írani um að hafa ráðist á tvö olíuskip í Ómanflóa og í nótt kveðst byltingarvarðlið Írans hafa skotið niður bandarískan njósnadróna yfir Suður-Íran.

Bandaríski herinn hefur sent 1.000 manna liðsauka til Miðausturlanda og Trump Bandaríkjaforseti útilokar ekki stríð við Íran.

Bogi Ágústsson fjallaði um aukna hörku í samskiptum þessara tveggja ríkja í Heimsglugganum á Morgunvakt Rásar 1 í morgun.

Hann rifjaði upp að Bandaríkin hefðu lengst af ekki viljað blanda sér í milliríkjadeilur eða styrjaldir hér og þar um heiminn og hefðu t.a.m. lengst af aftekið að blanda sér í síðari heimsstyrjöldina, eða allt þar til Japanir réðust á Pearl Harbour í árslok 1941. 

Hins vegar mætti ekki líta framhjá því að hvort ríki um sig neitar öllum ásökunum hins og framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lagt til að hlutlaus aðili kanni sannleiksgildi þessara ásakana. 

Þá má ekki gleyma því að innrás Bandaríkjanna í Írak árið 2003 byggði á ásökunum Bandaríkjamanna um að þar væru efnavopn í stórum stíl, ásakanir sem reyndust rangar.

Borgi ræddi einnig um niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknarnefndar á því þegar MH17, farþegaflugvél Malaysian Air, var skotin niður yfir Úkraínu fyrir fimm árum með þeim afleiðingum að 298 týndu lífi, en niðurstaðan er að þrír Rússar og einn Úkraínumaður beri ábyrgð á árásinni.

Þá greindi hann frá rannsókn Sameinuðu þjóðanna á morðinu á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Boga í spilaranum hér að ofan.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV