Ása og Sandra settar dómarar við Landsrétt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur sett tvo nýja dómara við Landsrétt. Ása Ólafsdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, verður sett í embætti frá 25. febrúar og Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari frá 2. mars. Báðar eru þær settar landsréttardómarar til 30. júní.

Ása og Sandra eru settar í embætti tímabundið vegna fjarveru tveggja dómara sem Mannréttindadómstóll Evrópu taldi að væru ólöglega skipaðir. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, tók fjóra umsækjendur um stöðu landsréttardómara fram yfir aðra umsækjendur sem dómnefnd um hæfni umsækjenda mat hæfari. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að skipun dómaranna fjögurra væri ólögleg og hafa þeir ekki sinnt dómsstörfum síðan. Ása og Sandra eru settar í þau embætti sem losnuðu þegar Jón Finnbjörnsson og Ásmundur Helgason óskuðu eftir leyfi síðasta sumar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV