Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Artemis áætlunin hefst á næsta ári

24.05.2019 - 02:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, afhjúpaði í dag nýja tunglferðaáætlun sína, kennda við Artemis. AFP fréttastofan greinir frá þessu. Átta ferðir eru fyrirhugaðar til tungslins, þar á meðal ein þar sem geimstöð verður komið fyrir á braut um tunglið.

Jim Bridenstine, yfirmaður NASA, staðfesti að fyrsta verkefnið í Artemis áætluninni verði að senda mannlaust geimfar í kringum tunglið á næsta ári. Ráðgert er að annað verkefni áætlunarinnar hefjist tveimur árum síðar þar sem mannaðar geimflaugar fljúga í kringum tunglið, og loks árið 2024 verður lent á tunglinu, þar sem meðal annars er stefnt að því að fyrsta konan stígi á tunglið. Artemis 1, 2 og 3 verður skotið upp með stærstu geimflaug sögunnar, SLS, sem er smíðuð í samvinnu NASA og Boeing. 

Auk þessarra þriggja verkefna verða farnar fimm ferðir með byggingarefni fyrir geimstöðina sem á að rísa á braut um tunglið. Orion hylkið, sem Lockheed Martin tekur þátt í að smíða, verður fast við geimstöðina. Geimstöðin á að verða klár fyrir árið 2024, þegar flogið verður með menn á tunglið. Þar koma geimfararnir við áður en flaug þeirra býr sig undir lendingu á tunglinu. Á leiðinni til baka verður hluti lendingarbúnaðarins eftir á tunglinu, og geimfararnir fljúga til geimstöðvarinnar. Þaðan fljúga þeir svo í Orion hylkinu aftur til jarðar.

Bridenstine segir að unnið verði hratt að því að komast aftur á tunglið, um hálfri öld eftir að menn stigu þangað fyrst. 2024 sé handan við hornið og því verði að hafa hraðar hendur eigi áætlunin að standast. Meginmarkmiðið sé svo að halda til Mars þegar Artemis verkefnunum lýkur.

Fyrra tunglverkefni NASA var kennt við Apollo, tunglguð forn-Grikkja. Artemis var tvíburasystir hans, gyðja veiða, víðáttu og tunglsins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV