Ársuppgjör ástareyjunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Love Island ITV2 - YouTube

Ársuppgjör ástareyjunnar

30.07.2019 - 14:12
Raunveruleikaþáttaröðin Love Island hefur verið mikið á milli tannanna á fólki að undanförnu. Í gær lauk fimmtu syrpu þáttanna, sem hafa notið vaxandi vinsælda hjá landanum og sífellt fleiri eru farnir að tala um „sínar týpur á pappír.“ En hvað er svona sérstakt við þætti sem fjalla um fallega einstaklinga í leit að ástinni (eða fleiri Instagramfylgjendum)?

Þættirnir hófu göngu sína á bresku sjónvarpsstöðinni ITV2 árið 2015. Vinsældirnar náðu litlum hæðum fyrstu árin en það var í þriðju seríu sem margir fóru að bíta á agnið. Áhorf á fjórðu seríuna óx síðan hratt og fólk utan Bretlands fór að skemmta sér yfir ástarleik eyjaskeggjanna. Vinsældirnar urðu reyndar svo miklar að í dag hafa þættir með sama sniði verið framleiddir víðar um heim. Það verður þó að nefnast að það er töluverð skuldbinding horfa á þættina enda er um að ræða einn 50 mínútna þátt á dag, sex daga vikunnar. 

Í grófum dráttum ganga þættirnir út á að finna ástina. Tíu einstaklingar eða „eyjaskeggjar“ (e. islanders)  hefja ferðalagið, ótengdir umheiminum í stórglæsilegri villu á Mallorca. Fimm karlar og fimm konur eru látin para sig saman og svo byrjar ballið. Einhverjir detta í lukkupottinn og halda saman alla seríuna en aðrir eru ekki svo heppnir. Enginn þarf þó að örvænta því fljótlega eftir fyrstu „pörunina“ (e. recoupling) mæta fleiri „eyjaskeggjar“ á svæðið til að hræra upp í hlutunum. 

Sumir eru ekki hræddir við að troða hamingjusömum pörum um tær enda eru allir þarna í sama tilgangi, að finna sér sálufélaga. Oft verður það til þess að ástarþríhyrningar eða jafnvel ástarferhyrningar myndast. Adam og Eva eru þó sjaldnast lengi í Paradís og eru á endanum neydd til þess að velja sér félaga í hverri „pöruninni“ á eftir annarri. 

Við og við eru þeir sem ekki veljast í pör, eða heilu pörin, send heim. Áhorfendur fá oftar en ekki að hafa áhrif á það hverjir eru sendir heim, þó svo að framleiðendur þáttanna séu heldur ekki hræddir við að koma á óvart með áhugaverðum viðsnúningum. Á endanum stendur valið svo á milli fjögurra para sem eiga öll möguleika á því að vinna 50 þúsund pund. Sú ákvörðun er alfarið í höndum áhorfenda sem fá að kjósa sitt uppáhaldspar. 

Þessu fylgir að sjálfsögðu mikið drama og í flestum tilfellum töluvert af tárum. „Eyjaskeggjunum“ er þó af og til skemmt með áhugaverðum leikjum og áskorunum þar sem þeir fá tækifæri til að sanna sig við hinar ýmsu athafnir eða þar sem reynt er á samstöðu og samvinnu paranna. 

Fimmta þáttaröðin hefur ekki valdið vonbrigðum og ef eitthvað er aukið vinsældir þáttanna. Ef þú hefur ekki séð seríuna eða hyggst horfa á hana í nánustu framtíð mælum við gegn því að lesa lengra þar sem um töluverða spennuspilla verður að ræða. Ef þú hins vegar hefur horft þá mælum við eindregið með því að lesa áfram og rifja upp bestu brotin úr villunni þetta sumarið. 

Þrátt fyrir að aðeins eitt par hafi opinberlega orðið kærustupar og þó flestra drengjanna í seríunni verði seint minnst fyrir trygglyndi sitt þá verður því ekki neitað að serían hefur verið óborganleg skemmtun. Hennar verður líklega minnst fyrir ótrúlega samstöðu milli stelpnanna sem létu strákana ekki vaða yfir sig eða vinkonur sínar á skítugum skónum.

Stórir persónuleikar voru líka áberandi í þessari fimmtu þáttaröð og við fengum ófá ógleymanleg augnablik. Hin 28 ára gamla Maura Higgins var uppáhald margra enda eiginlega ómögulegt að liggja ekki í hláturskasti yfir frösum eins og „MY VAGINA IS TROBBIN“ eða „THERE´S GONNA BE LOADS OF WILLY.“ Ekki skemmir þykki írski hreimurinn svo fyrir. 

Tveggja metra hái körfuboltamaðurinn Ovie Soko var heldur ekki lengi að stela hjörtum áhorfenda enda líklegast einn alrólegasti maður sem sést hefur á sjónvarpsskjáum. Ekkert, og þá meinum við ekkert, fór í taugarnar á þessum ágæta manni sem púllar hvaða hatt sem er, dansar betur en flestir í slopp og mun að eilífu vera í huga okkar þegar við fáum skilaboð. MESSAGE!

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Summer 2019 will forever sound like THIS: #message #LoveIsland

A post shared by Love Island (@loveisland) on

En líklega var engin jafn dáð af áhorfendum og hin 21 árs gamla Amber Rose Gill frá Newcastle. Amber var ein af þeim tíu keppendum sem komu í villuna á fyrsta degi. Það voru ekki allir sannfærðir um ágæti hennar til að byrja með og mörgum þótti hún jafnvel óþolandi. Þetta var fljótt að breytast þegar slökkviliðsmanninum Michael tókst að uppgötva „mjúku hliðar“ hennar. Þau pöruðu sig saman og margir voru sannfærðir að þar væru komnir sigurvegarar þáttaraðarinnar. Svo kom að „Casa Amor“ og Michael ákvaða að velja Joanna fram yfir Amber. Draumar bresku þjóðarinnar (og heimsins) voru brostnir og við tóku langar vikur af eymd og volæði fyrir Amber.

Þegar Joanna var svo send heim af „eyjaskeggjunum“ var Michael allt í einu einn aftur. Eftir heilmikið af mis vinalegum samtölum viðurkenndi hann það loks fyrir Amber að hann bæri enn tilfinningar til hennar. En það var of seint, írski prinsinn Greg O´Shea var mættur í villuna og eftir mikla umhugsun ákvað Amber að velja hann fram yfir Michael í næstu „pörun.“

Þrátt fyrir að boxarinn Tommy Fury og instagramáhrifavaldurinn Molly-Mae hefðu verið í pari næstum frá upphafi, orðið kærustupar og játað hvor öðru ást sína var það ekki nóg til að sigra. Almenningur stóð á bak við Amber og ferðalag hennar í gegnum súrt og sætt síðustu átta vikurnar. Á endanum voru það hún og írski prinsinn Greg sem stóðu uppi sem sigurvegarar.

Nú tekur hins vegar við frægðin og framinn og hin raunverulega prófraun. Munu pörin sem mynduðust í þáttunum haldast saman í gegnum hvirfilbylinn sem lífið fyrir utan villuna verður eða mun athyglin og áreitið koma upp á milli þeirra. Aðeins tíminn mun leiða það í ljós en eitt er fyrir víst, við getum ekki beðið eftir því að fá ástareyjuna aftur á skjáinn okkar snemma á næsta ári.