Arsenal skoraði fjögur í síðari hálfleik

epa08222537 Arsenal's Nicolas Pepe (R) skips past Newcastle United's Jamaal Lascelles during an English Premier League soccer match at the Emirates Stadium in London, Britain, 16 February 2020.  EPA-EFE/ANDY RAIN EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Arsenal skoraði fjögur í síðari hálfleik

16.02.2020 - 18:25
Arsenal vann mikilvægan 4-0 sigur á Newcastle United er liðin áttust við á Emirates-vellinum í Lundúnum í dag. Nicolás Pépé fór fyrir Arsenal í leiknum.

Arsenal hóf árið frábærlega með 2-0 sigri á Manchester United en hefur gert jafntefli í fjórum deildarleikjum sínum síðan. Liðið var jafnt andstæðingi dagsins, Newcastle, og Southampton að stigum í 11.-13. sæti deildarinnar fyrir leik dagsins.

Leikur liðanna var tíðindalítill í fyrri hálfleik og markalaust var í leikhléi. Níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar Gaboninn Pierre-Emerick Aubameyang skallaði fyrirgjöf Nicolásar Pépé í markið. Tæplega þremur mínútum síðar tvöfaldaði Pépé forystu Arsenal með fínni afgreiðslu eftir skemmtilegan undirbúning Bukayo Saka sem klobbaði DeAndre Yedlin, varnarmann Newcastle, laglega í aðdragandanum.

Mesut Özil skoraði þá þriðja mark Arsenal á 90. mínútu eftir góðan undirbúning varamannsins Alexandre Lacazette en sá franski skoraði svo sjálfur fjórða markið eftir fyrirgjöf frá Nicolás Pépé í uppbótartíma.

4-0 urðu úrslit leiksins, Arsenal í vil. Sigurinn er þeirra fyrsti í deildinni síðan á nýársdag og er liðið nú með 34 stig í 10.-11. sæti deildarinnar ásamt Burnley. Sjö stig eru upp í Meistaradeildarsæti en Chelsea er í fjórða sæti deildarinnar með 41 stig.

Manchester United er stigi fyrir ofan Arsenal í níunda sæti en Rauðu djöflarnir mæta Chelsea annað kvöld.