Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Arsenal í sóttkví - Arteta greindur með COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: Arsenal

Arsenal í sóttkví - Arteta greindur með COVID-19

12.03.2020 - 23:18
Knattspyrnustjóri Arsenal, Mikel Arteta, hefur verið greindur með COVID-19 kórónaveiruna. Æfingasvæði félagsins hefur verið lokað og allir sem hafa átt í samskiptum við hann undanfarna daga fara í sóttkví, þar á meðal allir leikmenn liðsins, sem leikur í ensku úrvalsdeildinni.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að öll liðin í deildinni vilji samræma aðgerðir sínar og að til umræðu sé að fresta öllum leikjum helgarinnar. Haldinn verður fundur á morgun um stöðuna sem komin er upp. 

„Þetta eru mikil vonbrigði, ég fór í skimun því ég var ekki heill heilsu,“ hefur Breska ríkisútvarpið eftir Arteta sem ætlar að mæta aftur til vinnu um leið og það verður leyfilegt. 

Heilsa fólksins sem tilheyrir liðinu og almennings er í forgangsatriði, segir framkvæmdastjóri félagsins, Vinai Venkatesham. „Við ráðfærum okkur stöðugt við sérfræðinga til að ráða fram úr stöðunni og við hlökkum til að fara aftur að æfa og spila og leið og læknar leyfa,“ hefur BBC eftir honum.

Til stóð að Arsenal myndi leika gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni á laugardag klukkan 15:00.