Aron Mola varð kjaftstopp þegar Bubbi gekk inn

Mynd: RÚV / RÚV

Aron Mola varð kjaftstopp þegar Bubbi gekk inn

16.01.2020 - 13:44

Höfundar

Rakel Björk og Aron Már sem bæði taka þátt í sýningunni Níu líf, sem sýnd verður í Borgarleikhúsinu í vor, voru stödd í hljóðveri um það bil að fara að flytja einn frægasta smell Bubba Morthens þegar hann Bubbi sjálfur inn og kom þeim á óvart. „Kaldur sviti rann niður bakið á mér,“ segir Aron.

Í vor verður frumsýndur glænýr söngleikur sem byggður er á ævi og tónlist Bubba Morthens þar sem dansarar, leikarar og tónlistarmenn túlka lög hans og persónu. Tugur leikara kemur til með að túlka Bubba sjálfan í verkinu og munu þau flytja ljóð hans og segja sögur af honum. Sýningin er í leikstjórn Ólafs Egils Ólafssonar en lagt verður upp með að bæði þátttakendur og áhorfendur finni sinn persónulega Bubba sem aðstandendur sýningarinnar segja að leynist innra með okkur öllum. Í Popplandi í gær var frumflutt ný útgáfa af laginu Rómeó og Júlía en það er það fyrsta sem fær að hljóma af lögum sýningarinnar.

Leikararnir Rakel Björk Björnsdóttir og Aron Már Ólafsson, sem margir þekkja einnig sem samfélagsmiðlastjörnuna Aron Mola, voru gestir Lovísu Rutar Kristjánsdóttur í Popplandi. Þau fara bæði með hlutverk í sýningunni og sögðu þau frá ferlinu og því sem fram undan er, eins mikið og þau geta gefið upp, en mikil dulúð ríkir enn yfir því hvernig lokaútkoman verður í vor. Þau segjast bæði sérstaklega spennt fyrir æfingaferlinu sem nú er að fara á fullt og lofa því að sýningin, sem enn er í þróun, verði mikil upplifun fyrir áhorfendur og sérstaklega aðdáendur Bubba. „Við ræddum það á samlestri að þetta yrði einhvers konar karnival og er stefnan okkar núna að við erum opin fyrir öllum stílum,“ segir Rakel. 

Aron rifjar upp þegar þau voru saman stödd í hljóðveri nýverið og án fyrirvara mætti Bubbi sjálfur á svæðið þegar dúóið var um það bil að taka eitt af hans frægari lögum. „Við vorum þarna tvö að fara að syngja lagið Rómeó og Júlía, sem verður kitla fyrir söngleikinn, og ég er með munninn við míkrafóninn að fara að syngja línuna þegar dyrnar opnast upp á gátt. Þá er það Bubbi Morthens sem stendur þarna. Kaldur sviti rann niður bakið á mér,“ segir Aron og hlær. „Aron varð alveg kjaftstopp,“ samsinnir Rakel. „Ég hugsaði að ég væri ekki að fara að syngja þetta lag fyrir framan manninn, ég get það ekki undir þessari pressu,“ bætir Aron við. „En þetta var ótrúlega gaman. Hann var byrjaður að segja sögur úr bransanum og það var einhvern veginn eins og ég segi sko, hann er geggjaður karakter sem sogar mann alveg inn sko.“

Rakel segir verkefnið spennandi en líka krefjandi því Bubbi fær að sjálfsögðu sjálfur að sjá afraksturinn. „Hann er enn á lífi og það skiptir máli að þetta er ekki einhvers konar minningarathöfn eða neitt slíkt. Hann bara fer út í bíl eftir sýningu eins og hver annar.“

Á laugardaginn hitar Bubbi upp fyrir sýninguna með tónleikum í Borgarleikhúsinu kl. 16 þar sem hann leikur sín þekktustu lög fyrir gesti. Á miðnætti sama kvöld hefst forsalan á leikritið.

Aron Már og Rakel Björk voru gestir Popplands og í spilaranum efst í fréttinni má hlýða á viðtal við þau og lagið Rómeó og Júlía í þeirra flutningi.

Tengdar fréttir

Tónlist

Guðrún Eva og Bubbi fá menningarviðurkenningar RÚV

Tónlist

„Mér finnst þetta pínkulítið óhugnanlegt“

Leiklist

Leikstjóraskipti í söngleiknum um Bubba