Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Aron Karlsson fékk tvö ár

19.11.2012 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Aron Karlsson var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa blekkt þrjá banka og hlunnfarið þá þegar hann seldi kínverska sendiráðinu stórhýsi við Skúlagötu 51. Aron neitaði við aðalmeðferð málsins að hafa beitt bleikingum.

Dómurinn gerði 98 milljónir af reikningi Ak-fasteigna upptækar og þá Aron dæmdur til að greiða  Arionbanka 64 milljónir, Íslandsbanka 48 milljónir og Glitni 48 milljónir auk dráttarvaxta. Þá var hann dæmdur til að greiða allan málskostnað.

Fasteignin var skráð í eigu félags sem Aron og faðir hans Karl Steingrímsson voru í forsvari fyrir. Til að unnt væri að ganga frá sölu eignarinnar þurftu þrír bankar að aflétta veðböndum af henni. Þá hafði tilboð sem nam 575 milljónum króna verið gert í eignina.  

Fimm dögum eftir að veði var aflétt fluttu þeir feðgar eignina yfir í annað félag sem einnig var í eigu þeirra. Þeir höfðu þá selt kínverska sendiráðinu eignina á 875 milljónir króna en hafnað fyrra tilboði sem bönkunum hafði verið gert kunnugt um.

Töldu bankarnir að með eignatilfærslunni hefðu þeir verið sviknir um 300 milljónir króna og kærðu eignarhaldsfélag Arons til sérstaks saksóknara. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru vegna málsins í apríl á þessu ári, rúmum þremur árum eftir að rannsókn þess hófst.