Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Arnfríður mátti dæma í Landsrétti

24.05.2018 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir - RÚV
Mynd með færslu
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Arnars Þórs Vatnsdal Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar í sakamáli manns sem hafði verið dæmdur í 17 mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot. Dómurinn þýðir að Arnfríður Einarsdóttir er hæf að mati Hæstaréttar til að dæma í Landsrétti en Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi mannsins, vildi að dómurinn yrði ómerktur þar sem ólöglega hefði verið staðið að skipan hennar sem dómara við dómstólinn

Vilhjálmur staðfesti í samtali við fréttastofu eftir dómsuppkvaðningu að málinu yrði skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það væri næsta skref. Hæstiréttur segir í niðurstöðu sinni að ekki hafi verið næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að maðurinn hafi, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum.

Málflutningur í Hæstarétti fór fram í síðustu viku. Þar sagði Jón H. B. Snorrason, saksóknari, að brýnt væri að eyða þeirri réttaróvissu sem uppi væri með dómi frá Hæstarétti. Skipan Arnfríðar í Landsrétt hefði verið í samræmi við lög því annmarkar hefðu verið á stigagjöf hæfnisnefndarinnar þar sem vægi dómarareynslu hefði verið vanmetin. 

Vilhjálmur Hans sagði það hafa verið ásetning ráðherra að skipa ákveðna dómara í trássi við niðurstöðu dómnefndar og rökin fyrir þeirri ákvörðun stæðust enga skoðun. Umsækjendum með mikla dómarareynslu hefði verið skipt út fyrir aðra. 

Skipanin í Landsrétt hefur verið umdeild en hún leiddi meðal annars til þess að stjórnarandstaðan lagði fram vantraust á dómsmálaráðherra eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði brotið lög. Sigríður sagðist vera efnislega ósammála niðurstöðu Hæstaréttar og vantrauststillagan var felld þegar hún kom til kasta Alþingis. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV