Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Árneshreppur leyfir rannsókn fyrir virkjun

24.06.2017 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Rúv
Hreppsnefnd Árnesshrepps hefur fyrir sína parta gefið grænt ljós á að rannsóknarvinna til undirbúnings virkjunar í Hvalá geti hafist. Nefndin hefur þó ekki gefið endanlegt framkvæmdaleyfi, en rannsóknarvinnan gæti hafist í sumar með tilheyrandi vegagerð og jarðraski.

Tæplega 70 manns mættu á málþing varðandi virkjunarframkvæmdir í Hvalá í Árneshreppi á Ströndum í dag. Í byggðarlaginu búa 46 manns og tilgangur málþingsins var að opna umræðuna og koma sjónarmiðum allra á framfæri.

Skoðanir í hreppnum eru skiptar. En hvaða áhrif hefur svona stórt mál á svona lítið samfélag? „Mér finnst þetta ekkert vera að hafa rosalega mikil áhrif. Maður veit að það hafa verið að skerpast línur í þessu; sumir eru þessu mótfallnir en hafa ekki verið það fyrr en núna á síðustu stundu. Við látum þetta ekki hafa áhrif á okkur að öðru leyti. Við bara megum það ekki. Við erum svo fá, við þurfum að standa saman að svo mörgum öðrum málum að við getum ekki látið þetta eyðileggja fyrir okkur. Þetta verður bara hrein atkvæðagreiðsla, væntanlega innan hreppsnefndar, þegar næstu skref verða tekin. Hver sem þau eru.“

Þar vísar Eva til endanlegrar ákvörðunar um hvort hreppurinn veiti Vesturverki leyfi til að ráðast í framkvæmdirnar. Hreppsnefnd hefur nú þegar tekið afstöðu til rannsóknarleyfis fyrir framkvæmdinni og hefur undanfarið unnið að breytingum á aðalskipulagi í hreppnum svo ráðast megi í rannsóknirnar.

„Rannsóknarleyfið hefur verið fyrir hendi í þrjú ár og það er ekki hreppsins að gefa það þannig að það er óviðkomandi öllum ákvörðunum sem hér verða. Það sem er núna að gerast er að við erum að gera þeim kleift að fara í þá rannsóknarvinnu sem þarf að gera uppi á heiðinni. Við erum nýbúin að senda okkar ákvörðun til Skipulagsstofnunar sem mun síðan fjalla um hana og ef ekkert kemur fram þar sem þeim finnst skipta máli þá fara þessar rannsóknir af stað og jafnvel í sumar.“

Þannig að þið eruð búin að gefa grænt ljós fyrir ykkar parta? „Já við erum búin að því.“

Uppfært: Í fréttinni kom fram að umsókn um rannsóknarleyfi væri á borði sveitarstjórnar. Rannsóknarleyfið, ekki umsókn, var á borði sveitarstjórnar þar sem ráðast þurfti í aðalskipulagsbreytingar í Árneshreppi svo rannsóknir gætu hafist.