
Arnar hættir sem formaður Landssambands kúabænda
Í grein sem Arnar ritar í nýtt Bændablað, segir hann að þegar núverandi búvörusamningur var undirbúinn árið 2015 hafi farið af stað atburðarás sem leiddi til þess að hann ákvað að bjóða sig fram til formennsku.
Verkefninu lokið
Því verkefni sé nú lokið og tryggt að framleiðslustýring í mjólkurframleiðslu verður ekki lögð niður við endurskoðun samnings um starfsskilyrði kúabænda. „Endurskoðaður samningur liggur fyrir og reglugerðasmíð í kringum hann er lokið,“ segir Arnar.
Krefjandi tími framundan
Og hann segir krefjandi, en þó skemmtilega, tíma framundan í mjólkurframleiðslu á Íslandi. Umræðan um umhverfis- og loftslagsmál sé áberandi og þar muni kúabændur ekki láta sitt eftir liggja. „Höfum við látið greina kolefnislosun nautgriparæktarinnar á Íslandi og verður sú skýrsla kynnt á næstu vikum. Í þessum málaflokki liggja líklega okkar stærstu áskoranir sem bænda,“ skrifar Arnar.