Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Árleg hryðjuverkaæfing haldin á Íslandi í dag

12.09.2019 - 21:39
Mynd: Rúv / Rúv
Allir helstu sprengjusérfræðingar Atlantshafsbandalagsins taka nú þátt í æfingu hér á landi. Meira en 600 tilbúnar sprengjur verða aftengdar. Yfirliðþjálfi í breska hernum segir aðstæður til þjálfunar hér einstaklega góðar.

Æfingin Northern Challange, eða árleg æfing sprengjusérfræðinga fór fram á Miðnesheiðinni í dag.

Æfa viðbrögð við hryðjuverkaárásum

Markmið æfingarinnar er að æfa viðbrögð við hryðjuverkaárásum. 250 manns og nokkur vélmenni frá 17 löndum taka þátt í æfingunni sem skipulögð er af íslensku Landhelgisgæslunni.

Keith Mabbott, yfirliðþjálfi í breska hernum, segir að æfingar sem þessar séu lærdómsríkar og afar mikilvægar þar sem menn skiptist á reynslu og þekkingu.

Framleiddu um 600 sprengjur fyrir æfinguna

Jónas Karl Þorvaldsson sprengjusérfræðingur sagði að um 600 sprengjur hefðu verið framleiddar fyrir æfinguna. „Þetta er allt byggt á einhverjum búnaði sem fundist hefur í heiminum, svo sem eftirlíkingar af því. Þær eru þannig útbúnar að við sjáum samt hvort að eyðingin virkaði eins og hún átti að gerast og þannig getum við dæmt liðin út frá því hvernig þau stóðu sig á æfingunni.“

„Við æfum okkur í bílasprengjum, neðansjársprengjum, sprengjum á jörðu, sprengjum í töskum, sprengju í skipum, flugvélum, bara allt mögulegt. En allt eru þetta eftirlíkingar á sprengjum sem hafa fundist í heiminum,“ sagði Ásgeir R. Guðjónsson sprengjusérfræðingur.