Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Árið 2020 verður meiri Bríet“

Mynd: RÚV / RÚV

„Árið 2020 verður meiri Bríet“

24.01.2020 - 16:44

Höfundar

Poppstjarnan Bríet hóf ferilinn sinn sem trúbador á Íslenska barnum þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul. Hún spilaði þar svokallaða kvöldverðartónlist fyrir gesti á meðan þau snæddu og heilluðust af hæfileikum hinnar ungu söngkonu. Bríet er í dag ein vinsælasta tónlistarkona landsins og kíkti hún í Stúdíó 12 og tók þrjú lög, þar af eina ábreiðu og tvö frumsamin lög.

Þótt ekki hafi farið mikið fyrir söngkonunni Bríeti síðustu vikur lofar hún að hefja árið 2020 á miklu flugi með tilheyrandi útgáfum og tónleikahaldi. Ferillinn hefur verið í örlítilli biðstöðu vegna flókinna samningaviðræðna en strax eftir tvær vikur kemur nýtt lag út eftir söngkonuna, lag sem einhverjir landsmenn þekkja en hún frumflutti það í þætti Gísla Marteins seint á síðasta ári. Lagið er ástaróður þar sem Esjan, fjallið sem Reykvíkingar elska, er notað sem mælikvarði á hina mestu fegurð. Hún er þó auðvitað ekki fallegri en sá sem ort er til. Lagið nefnist einfaldlega Esjan er falleg.

Mynd: RÚV / RÚV
Dino fjallar um þann sem er bestur í heimi í lífi Bríetar.

Upp á síðkastið hefur verið mikið um að vera enda ferillinn kominn á fullt og hefur hún varið mestum tíma í stúdíóinu að semja en svo málar hún þess á milli. Hún hvílist líklega ekki mikið þessa dagana en söngkonan á næga orku til enda er hún nýkomin frá Marokkó, þangað sem hún ferðaðist til að hvíla lúin bein og hlaða batteríin fyrir viðburðaríkt ár. „Við erum að fara að gefa út meira dót,“ lofar hún. „2020 verður meiri Bríet.“

Auk lagsins um Esjuna tók hún ábreiðu af laginu True Colors með Cindy Lauper en Bríet söng það fyrst í jarðarför og náði svo góðum tökum á laginu að hún ákvað að flytja það einnig í stúdíóinu. Hún flutti einnig lagið Dino sem fjallar um þann sem er bestur í heimi.

Mynd: RÚV / RÚV
Ábreiða af laginu True Colors með Cindy Lauper.

Á morgun verður Bríet með tónleika í Kaldalóni í Hörpu en þeir eru hluti af tónleikaröðinni Reikistjörnur. „Þetta verður klukkan tvö, við tvö, við Gabríel bara og kósý,“ segir hún spennt. „Þarna verða öll lögin mín flutt, óútgefin lög líka og skemmtilegt dót.“

Tengdar fréttir

Popptónlist

Það er allt svo leiðinlegt í Stúdíói 12

Tónlist

Stúdíó 12 kemur til Baggalúts

Tónlist

Koddar og geimverur í Stúdíó 12