
Í yfirlýsingu ríkjanna segir að raforkukerfi Íslands, sé sem stendur, einangrað kerfi og ekki tengt við orkukerfi innri markaðar Evrópusambandsins. Í því ljósi hefði stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, það er þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða raunhæfa merkingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkustrengur, sem tengir Ísland við markaðinn, er til staðar.
Þá segir einnig í yfirlýsingunni að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð EFTA-ríkjanna í EES yfir orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Ákvarðanir um samtengingu raforkukerfa á milli þessara ríkja og orkukerfis innri markaðar ESB verða ávallt á forræði þeirra, segir í yfirlýsingunni.
Ef raforkukerfi Íslands tengist innri markaðnum í framtíðinni verður það Eftirlitssstofnun EFTA sem úrskurðar ef ágreiningsmál koma upp en ekki ACER, samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, segir í yfirlýsingu ríkjanna. Utanríkisráðherra og framkvæmdastjóri orkumála í framkvæmdastjórn ESB sendu frá sér sams konar yfirlýsingu í mars síðastliðnum.
Síðustu vikur hefur verið tekist á um innleiðingu þriðja orkupakkans á Alþingi. Tveir af átta flokkum, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, eru honum andvígir. Þriðji orkupakkinn var afgreiddur úr Evrópuþinginu árið 2009 og á hann að tryggja frjálsa samkeppni á innri markaði ESB með raforku og gas, þvert á landamæri aðildarríkja.