Árásarmaðurinn í haldi eftir skotárás í Texas

03.08.2019 - 22:12
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Að minnsta kosti 19 eru látnir og 40 særðir eftir skotárás í verslun Walmart og verslunarmiðstöð í El Paso í Texas í kvöld, að því er fram kemur á vef NBC. Einn hefur verið handtekinn grunaður um verknaðinn.

Árásarmaðurinn er sagður heita Patrick Crusius, 21 árs, og segja bandarískir fjölmiðlar að hann hafi birt stefnuskrá á netinu þar sem hann lýsti yfir stuðningi við árásina í Christchurch á Nýja Sjálandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Crusius handtekinn.

Ríkissaksóknari Texas, Ken Paxton, sagði við CBS News að milli 15 og 20 manns hefðu látist í árásinni. Meira en 20 hafa verið lagðir inn á spítala í nágranna særðir eftir árásina, á aldrinum 2 til 82 ára.

Upphaflega var talið að þrír hefðu verið handteknir, síðar tveir en samkvæmt yfirvöldum er aðeins Crusius í haldi lögreglu.

Þetta er önnur skotárásin á skömmum tíma í verslun Walmart en á þriðjudag létust tveir og lögreglumaður særðist í verslun fyrirtækisins í MIssissippi.  

Dee Margo, borgarstjóri El Paso, sagðist ekki geta staðfest hversu margir væru látnir en þetta væri harmleikur sem hann ætti erfitt með að skilja.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur verið upplýstur um árásina og ræddi við bæði Bill Barr, dómsmálaráðherra, og Gregg Abott, ríkisstjóra Texas. Abott kallaði árásina svívirðilega og óskiljanlega og Trump kallaði hana hryllilega í yfirlýsingu á Twitter. 

Tæp vika er síðan 19 ára gamall byssumaður hóf að skjóta á gesti matarhátíðar í norðurhluta Kaliforníu og myrti þrjá, þar af tvö börn.  

epaselect epa07755363 Police stand at attention during an active shooting at a Walmart in El Paso, Texas, USA, 03 August 2019. According to reports, at least one person was killed and at least 18 people injured and transported to local hospitals. One suspect is in custody.  EPA-EFE/IVAN PIERRE AGUIRRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi