Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ár síðan gjaldtaka í Vaðlaheiðargöng hófst

03.01.2020 - 10:15
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Um 75% af þeim sem aka um Vaðlaheiði fara í gegnum Vaðlaheiðargöng. Framkvæmdastjóri ganganna segir tekjur eftir fyrsta árið að minnsta kosti 25% undir væntingum. Stórnotendur hafa kallað eftir breyttri verðskrá.

2. janúar var ár síðan gjaldtaka í Vaðlaheiðargöng hófst. Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri ganganna segir fyrsta árið hafa farið ágætlega fram en um 75% þeirra sem fari Vaðlaheiðina nota göngin; „Við reiknuðum með að 90% af allri umferð myndi fara göngin, svona eftir á að hyggja þegar við horfum betur á árið þá var það ofmat hjá okkur“.

Ekki hafi verið gert ráð fyrir því að íbúar í Grýtubakkahreppi og á Svalbarðsströnd ásamt tveimur hótelum á svæðinu myndu fara Víkurskarðið á austurleið þótt sú leið sé styttri. Þá vilji margir fara skarðið yfir sumarið og njóta útsýnisins. 

Tekjur undir væntingum

Ef gróft er talið má gera ráð fyrir að rúmlega 520 þúsund bílar hafi farið um göngin í ár og 175 þúsund farið um Víkurskarð. Heildarumferð um báða vegi var um 700 þúsund bílar sem er 5,3% aukning frá í fyrra. 

Gert var ráð fyrir um 800 - 900 milljónum í tekjur sem Valgeir segir að verði mun minni og gætu endað í 600-700 milljónum. Það dugi þó vel fyrir rekstrarkostnaði og skýrist helst af því að fleiri hafi keypt pakka með ódýrustu ferðunum en reiknað var með og notkun var minni. 

Háar fjárhæðir fyrir stórnotendur

Stórnotendur ganganna hafa kallað eftir breyttri verðskrá. Sagt hefur verið frá því í fréttum að fjölskyldur í Þingeyjarsveit sem sækja vinnu og nám til Akureyrar hafa margar hverjar þurft að borga um og yfir milljón fyrir ferðir í göngin á árinu. Ódýrasta ferð í göngin kostar 700 krónur.

„Já við höfum fengið ábendingar frá þeim sem nota göngin daglega og þá er þetta orðinn dálítill kostnaður þó þetta sé á lægsta gjaldi. Við höfum verið að skoða fyrirmynd sem er í færeyjum sem er mánaðargjald. Þá er borgað fast gjald á bíl og keyrt eins mikið og þeir vilja. Það er í skoðun og verður líklegast tekin ákvörðun um það á næstu mánuðum“ segir Valgeir.