Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Annie Mist önnur eftir fyrsta daginn

Mynd með færslu
Annie Mist og Katrín Tanja Mynd: Síða Crossfit Games - RÚV

Annie Mist önnur eftir fyrsta daginn

02.08.2019 - 10:00
Íslensku keppendurnir á heimsleikunum í crossfit komust öll í gegnum niðurskurðinn eftir fyrsta keppnisdag mótsins sem lauk í gærkvöld. Annie Mist Þórisdóttir stendur best að vígi.

Tvær greinar fóru fram í gær en þeirri síðari lauk skömmu eftir klukkan ellefu í gærkvöld. Skorið var niður í 75 keppendur eftir þá fyrri en 50 eftir þá síðari.

Annie Mist Þórisdóttir er önnur í keppni kvenna eftir fyrsta daginn með 182 stig, fjórum stigum á undan næstu keppendum. Hin bandaríska Karissa Pearce er með nokkuð afgerandi forystu á toppnum með 194 stig.

Katrín Tanja Davíðsdóttir er tólfta með 142 stig, átta stigum á undan Þuríði Erlu Helgadóttur sem er sextánda. Ragnheiður Sara Sigmunsdóttir er í 26. sæti og Oddrún Eik Gylfadóttir er í 32. sæti. Komust þær því allar í gegnum niðurskurðinn í gær.

Björgvin Karl Guðmundsson er eini íslenski karlinn á meðal keppenda aðalkeppni heimsleikana en hann er tólfti eftir fyrsta daginn með 139 stig. Mathew Fraser frá Bandaríkjunum er efstur í karlaflokki með 200 stig eftir greinar gærdagsins.

Keppni hefst að nýju í dag um klukkan 14:30 að íslenskum tíma.