Annar piltanna úr Hafnarfjarðarhöfn laus af gjörgæslu

24.01.2020 - 23:48
Mynd með færslu
 Mynd: Dagný - RÚV
Annar unglingspiltanna sem lagðir voru inn á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að þeir lentu í Hafnarfjarðarhöfn síðastliðinn föstudag hefur verið fluttur á almenna deild. Þetta herma heimildir fréttastofu. Hinn pilturinn liggur enn á gjörgæslu.

Piltarnir voru báðir í bíl sem fór út af Óseyrarbryggju í Hafnarfirði að kvöldi föstudagsins 17. janúar og komust ekki út af sjálfsdáðum. Kafarasveit Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bjargaði þeim út úr bílnum og á þurrt land nokkru síðar. Voru þeir báðir lagðir inn á gjörgæsludeild í alvarlegu ástandi.

Þriðji pilturinn sem var í bílnum komst út úr honum og var bjargað af sundi í höfninni. Hann var lagður inn á almenna deild. Lögregla rannsakar enn tildrög slyssins.

Töluverð hálka var á höfuðborgarsvæðinu þegar það varð, ekki síst í kringum hafnarsvæði. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er bryggjukanturinn á Óseyrarbryggju í samræmi við allar reglugerðir.