Annar maður handtekinn í máli lögreglumannsins

06.01.2016 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Lögregla handtók í dag karlmann um fertugt í tengslum við rannsókn ríkissaksóknara á meintum brotum lögreglumanns, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá 29. desember.

Hinn handtekni hefur hlotið dóm fyrir fíkniefnalagabrot, en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir honum. Enn fást engar upplýsingar frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins eða ríkissaksóknara, sem fer með rannsókn málsins, um meint brot lögreglumannsins.

Fréttastofa hefur þó fengið staðfest að maðurinn sé grunaður um óeðlileg samskipti við brotamenn. Gæsluvarðhald yfir lögreglumanninum, sem er á fimmtugsaldri, rennur út á föstudaginn.

Hefur setið í einangrun vegna rannsóknarhagsmuna

Ríkissaksóknari krafðist þess fyrir héraðsdómi að lögreglumaður, sem setið hefur í einangrun síðan 29. desember, grunaður um alvarleg brot í starfi, yrði úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna. Héraðsdómur féllst ekki á kröfu saksóknara og úrskurðaði manninn í sjö daga gæsluvarðhald. Ríkissaksóknari og verjandi lögreglumannsins kærðu þá úrskurðinn til Hæstaréttar, sem ákvað á gamlársdag að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi í 10 daga. Úrskurður Hæstaréttar hefur ekki verið birtur á vefsíðu dómstólsins, að beiðni saksóknara vegna rannsóknarhagsmuna.

Lögmaður lögreglumannsins, sem starfaði áður á fíkniefnadeild lögreglu höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við fréttastofu að skjólstæðingur sinn hafi ekki enn fengið tækifæri til að svara þeim sökum sem á hann eru bornar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir um slíkt. Þá hafi lögregla sömuleiðis synjað honum um öll gögn hvað varðar hin meintu brot. Hann hefur sent Héraðsdómi Reykjavíkur erindi þar sem hann krefst þess að lögregla verði skikkuð til að afhenda öll gögn málsins.