Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Annar Íslendingur með COVID-19 veiruna

01.03.2020 - 17:56
Mynd: RÚV / RÚV
Annar Íslendingur hefur greinst með COVID-19 kórónaveiruna. Maðurinn, sem er á sextugsaldri, kom með flugi Icelandair frá Veróna á Ítalíu í gær. Öllum farþegum vélarinnar hefur verið ráðlagt að fara í heimasóttkví. 180 voru um borð í vélinni. Öll Ítalía er nú skilgreind sem áhættusvæði og fólk á ekki að ferðast þangað nema brýna nauðsyn beri til. Þeir sem þangað fara eiga að fara í tveggja vikna heimasóttkví.

Fram kemur í færslu frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra að maðurinn hafi verið með lítil einkenni í gær og enn minni í dag. Hann verður heima hjá sér í sóttkví. Verið er að reyna að ná sambandi við alla farþega í vélinni sem kom frá Veróna í gær til þess að beina þeim tilmælum að vera í sóttkví næstu tvær vikur.

Hafist verður handa við að rekja mögulegar smitleiðir í tengslum við þetta smit. Allir fá upplýsingar um stöðu mála í kvöld og leiðbeiningar um sóttkví.  Það verkefni er unnið í samvinnu heilbrigðisyfirvalda og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á föstudag greindist íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri með veiruna. Hann hefur verið í einangrun á smitsjúkdómadeild Landspítalans síðan þá. Hann hafði verið í skíðaferðalagi í Andalo á Norður-Ítalíu ásamt fjölskyldu sinni og kom til landsins 22. febrúar. 

Í framhaldinu voru 49 settir í tveggja vikna heimasóttkví, þar á meðal vinnustaður mannsins. Fjölskylda mannsins, eiginkona og dóttir, hafa verið í heimasóttkví síðan á miðvikudag. 

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra hækkaði í framhaldinu viðbúnaðarstig úr óvissustigi í hættustig og fengust í framhaldinu tvær undanþágur frá Eflingu vegna verkfalls félagsmanna. 

Alls hafa 265 farið í heimasóttkví hér á landi vegna COVID-19 veirunnar. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við fréttastofu í gær að þeir hefðu ekki yfirsýn yfir það hversu margir Íslendingar hefðu farið til Norður-Ítalíu en væru einhver hundruð. Von er á 180 Íslendingum frá Ítalíu á laugardag í næstu viku og verður þeim væntanlega öllum gert að fara í heimasóttkví. Auk þess eru tíu Íslendingar í sóttkví á hóteli á Tenerife og er ekki vitað hvenær von er á þeim til landsins.

Samkvæmt vef Johns Hopkins -háskólans hafa langflest tilfelli í Evrópu verið á Ítalíu eða 1.128. Veiran hefur greinst á öllum Norðurlöndunum, flest í Noregi eða 15. 

Alls hafa 87.470 greinst með veiruna á heimsvísu. 42.670 hafa náð sér en 2.990 hafa látist, langflestir í Hubai-héraði í Kína eða 2.761. 29 dauðsföll eru skráð á Ítalíu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV