Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Angurværar tregavísur um hinsegin ástir

Mynd með færslu
 Mynd: Girl in red - Youtube

Angurværar tregavísur um hinsegin ástir

21.10.2019 - 14:59

Höfundar

Það styttist í eina stærstu tónlistarhátíð landsins, Iceland Airwaves. Hátíðin fer fram 6.-9. nóvember, á hinum ýmsu tónleikastöðum í Reykjavík eins og ár hvert. Poppland fjallar um eitt atriði á dag allt þar til herlegheitin skella á, og það er af nógu að taka. Í dag verður fjallað um norsku söngkonuna girl in red.

Stúlka í rauðu eða girl in red eins og hún kallar sig heitir í raun Marie Ulven Ringheim. Hún er fædd árið 1999 er enn ein unga norska tónlistarkonan sem hefur öðlast heimsfrægð. Textar hennar eru brothættir og hreinskilnir og höfða einlæg lög hennar sérlega vel til ungs fólks í tilvistarhugleiðingum.

Ringheim er frá bænum Horten í Noregi og byrjaði ung að búa til tónlist og gaf hana út í heimalandinu áður en hún hóf að framleiða tónlist undir sviðsnafninu girl in red. Marie segist hafa spilað á gítar síðan hún var um 14 ára: „Ég giska að þá þegar hafi ég byrjað að búa til tónlist. Það var svo árið 2017 þegar ég sagði við sjálfa mig að ég þyrfti að gera þetta sjálf vegna þess að ég ætla ekki að bíða eftir því að einhver komi og hjálpi mér.” 

Hún segist alltaf hafa verið að syngja og semja en það sem raunverulega kom henni í tónlist var þessi hefðbundna ástarsorg. „Ég fór að fikra mig áfram á forritinu Garage Band og taka upp þessar tilfinningar sem voru byrjaðar að krauma innra með mér. Þannig hófst þetta, mér leið mjög illa og fór að gera eitthvað í því,“ segir hún í viðtali við veftímaritið Complex. Hún gaf fyrst út tónlist á SoundCloud undir notandanum Lydia x vakti fljótlega verðskuldaða athygli.

Skömmu síðar gaf út sína fyrstu smáskífu árið 2018 sem bar titilinn I Wanna Be Your Girlfriend eða Ég vil vera kærastan þín og tímaritið The New York Times setti lagið í níunda sæti yfir 68 bestu lög ársins 2018. 

Síðan þá hefur verið hlustað yfir 30 milljón sinnum á lagið á Spotify. Hún hefur ekki gefið út breiðskífu ennþá en á að baki margar vinsælar smáskífur. Þar bera hæst áðurnefnt lag ásamt lögunum Summer depression eða Sumarleiðinn og We fell in love in October eða Við felldum hugi saman í október. Hún hefur svo sett lögin saman, hvort í sína þröngskífuna, Chapter 1 og Chapter 2. 

Girl in red er samkynhneigð og fjalla lög hennar að miklu leyti um hinseginleika og unglingakvíða. Tímaritið Paper kallar hana hinsegin táknmynd vegna þess hvernig hún höfðar til ungs fólks textum sínum sem fjalla um hinsegin rómantík og geðheilbrigði. 

Girl in red kemur fram í fyrsta skipti á Iceland Airwaves í vetur, laugardaginn 9. nóvember í Gamla bíói.

 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Draumkennd lög um kynlíf og eiturlyf

Airwaves

Sænskur elektróprins á sveimi í Reykjavík

Tónlist

Syngjandi grafískur hönnuður frá norðrinu