
Þetta er í þriðja sinn sem Merkel og Katrín eiga fund saman. Þær hittust fyrst í mars á síðasta ári og svo aftur síðasta sumar. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti í 19 ár sem kanslari Þýskalands kemur í opinbera heimsókn til Íslands.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld að það væri ánægjulegt að Merkel skyldi hafa þegið boð um að koma hingað. Hún sagði að loftslagsmálin yrðu áberandi, bæði á fundi hennar með Merkel en líka á fundi norrænu forsætisráðherranna. „Við munum líka ræða þróun stjórnmála í Evrópu, ekki síst uppgang popúlistaflokka sem hún hefur látið sig miklu varða og talað mikið um.“
Á vef forsætisráðuneytisins kemur fram að á fundunum verði horft til tækifæra til þess að auka samstarf Norðurlandanna og Þýskalands til að takast á við áskoranir á alþjóðavettvangi „ekki síst afleiðingar loftslagsbreytinga og stuðning við sjálfbæra þróun.“