Andsvör Klausturmanna bárust forsætisnefnd

29.07.2019 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisnefnd Alþingis vonast til þess að afgreiða Klausturmálið svokallaða í þessari viku. Ekki fæst uppgefið hverjir þingmannanna sex, sem sátu að sumbli á barnum, hafa brugðist við niðurstöðu siðanefndar. Frestur til þess rann út á föstudag. 

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, sem situr í forsætisnefnd, segir að nefndin hafi tekið á móti andsvörum Klausturmanna við niðurstöðu siðanefndar. „Ég ætla ekki að tjá mig um það hverjir brugðust við. En okkur hafa borist sjónarmið,“ segir Steinunn Þóra. Forsætisnefnd fer nú yfir svör þingmannanna.

Klausturmálið er flestum kunnugt. Upptöku, þar sem sex þingmenn heyrðust ræða saman af lítilsvirðingu um samstarfsfólk sitt á þingi,  var lekið til fjölmiðla. 

Siðanefnd Alþingis afgreiddi málið í síðustu viku og sendi til sérstakrar forsætisnefndar. Í henni situr tímabundið auk Steinunnar, Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þar sem þau voru í hópi fárra þingmanna sem höfðu ekki tjáð sig um málið í fjölmiðlum.

Forsætisnefnd ætlar að opinbera mat sitt þegar það er tilbúið. Steinunn segir erfitt að segja til um það hvenær það verður. „Ég veit það ekki alveg nákvæmlega en vonandi í þessari viku. En eins og ég segi, vonandi sem fyrst,“ segir Steinunn Þóra jafnframt.

Þetta er í annað sinn sem reynir á siðareglur þingmanna fyrir forsætisnefnd. Fyrr í sumar staðfesti forsætisnefnd úrskurð siðanefndar um að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefði brotið siðareglur með ummælum sem hún lét falla um Ásmund Friðriksson í Silfrinu. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV