Andrés og Rósa verða áfram í þingflokknum

30.11.2017 - 12:43
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og verðandi forsætisráðherra, segist hafa valið að sækja einn ráðherra sinna út fyrir þingið til að styrkja þingflokkinn í ljósi þess að óvissa hafi verið um stuðning tveggja þingmanna við ríkisstjórnina. Á þingflokksfundi nú í hádeginu kom hins vegar í ljós að þingmennirnir tveir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, hygðust vera áfram hluti af þingflokknum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, verður umhverfisráðherra Vinstri grænna, Katrín verður forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir verður heilbrigðisráðherra. „Verkefni á þinginu verða mikil,“ segir Katrín, spurð hvers vegna hún hafi ákveðið að gera Guðmund að umhverfisráðherra. 

„Við erum að horfa til þess að efla Alþingi og að þar verði ýmis verkefni tekin fyrir umfram þá sem verið hafa. Ég hef líka horft til þess að það hefur verið óvissa um stuðning tveggja þingmanna úr mínum þingflokki við nýja ríkisstjórn og ég hef því talið nauðsynlegt að styrkja þann hluta þingflokksins sem mun vera hér hluti af meirihlutanum.“

Mynd með færslu
Andrés og Rósa mæta til þingflokksfundarins í dag. Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Rósa og Andrés hafi hins vegar ákveðið að fylgja niðurstöðu flokksráðsfundar í gær, þrátt fyrir að hafa þar greitt atkvæði gegn stjórnarsáttmálanum, og vera áfram hluti af þingflokknum. Spurð hvort þau muni styðja stjórnina segir Katrín að það sé nú til umræðu í þingflokknum.

Sex karlar skipa ríkisstjórnina og fimm konur. „Ég hefði gjarnan viljað hafa fleiri konur en karla,“ segir Katrín. Hún segist hins vegar telja þetta ásættanlegt.

„Ætli mitt fyrst verk verði ekki bara að mæta í Kastljósið til ykkar?“ segir hún, spurð hvert hennar fyrsta verkefni í forsætisráðuneytinu verði eftir að hún tekur við embættinu á ríkisráðsfundi á eftir

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi