Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Andlát: Vilhjálmur Einarsson

Mynd með færslu
 Mynd: - - IOC

Andlát: Vilhjálmur Einarsson

29.12.2019 - 15:22
Vilhjálmur Einarsson er látinn, 85 ára að aldri. Vilhjálmur var einn fremsti þrístökkvari í heimi á árunum 1956-1962. Frægasta afrek hans vann Vilhjálmur þegar hann vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu 1956 og var um leið fyrstur Íslendinga til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum. Þá hefur enginn verið kjörinn íþróttamaður ársins oftar en Vilhjálmur.

Í tilkynningu frá fjölskyldu Vilhjálms kemur fram að útför hans fari fram frá Hallgrímskirkju föstudaginn 10. janúar klukkan 15. Vilhjálmur lést á Landspítalanum laugardaginn 28. desember.

Vilhjálmur Einarsson fæddist 5. júní 1934 að Hafranesi við Reyðarfjörð og hóf íþróttaferil sinn á skólamótum á Eiðum um 1950. Hann þótti á þeim tíma sterkur kúluvarpari og um tíma kom svo til greina að hann legði fyrir sig tugþraut. Eftir að hann flutti til Reykjavíkur og hóf æfingar hjá ÍR varð þó fljótlega úr að hann einbeitti sér að þrístökki. Hann náði svo lágmarki inn á Ólympíuleikana í Melbourne 1956 þar sem hann setti Ólympíumet í greininni með stökki upp á 16,26 m. Hann er eini Íslendingurinn sem sett hefur Ólympíumet. Metið stóð í tvær klukkustundir þegar Brasilíumaðurinn Adhemar Ferreira da Silva stökk 16,35 m og tryggði sér gullið. Silfurverðlaun voru niðurstaðan hjá Vilhjálmi sem varð um leið þjóðhetja á Íslandi.

Árið 2016 þegar 60 ár voru frá afreki Vilhjálms í Melbourne gerði RÚV þættina Íþróttaafrek Íslendinga þar sem mörg af helstu íþróttaafrekum Íslendinga í gegnum tíðina voru tekin fyrir. Afrek Vilhjálms var vitanlega þar á meðal. Þann þátt má sjá hér.

Mynd: Birkir Ásgeirsson / RÚV

Starfandi íþróttafréttamenn á Íslandi tók sig til og stofnuðu Samtök íþróttafréttamanna árið 1956 og hófu að kjósa Íþróttamann ársins. Vilhjálmur hlaut nafnbótina fyrstu þrjú árin og svo tvisvar sinnum eftir það. Vilhjálmur er sá sem oftast hefur verið kjörinn Íþróttamaður ársins eða fimm sinnum.

Þó Vilhjálmur sé frægastur fyrir silfurverðlaunin í Melbourne vann hann líka til bronsverðlauna á EM í frjálsum íþróttum 1958 í Stokkhólmi, varð í 5. sæti þrístökkskeppninnar á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og í 6. sæti á EM 1962 í Belgrad. Eftir það Evrópumót lauk Vilhjálmur glæstum íþróttaferli sínum aðeins 28 ára. Eftir það helgaði hann sig menntamálum og var um árabil skólastjóri í Reykholti í Borgarfirði og fyrsti skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum.

Vilhjálmur var tekinn fyrstur allra inn í Heiðurshöll ÍSÍ þegar hún var sett á laggirnirnar í janúar 2012. Til marks um yfirburði Vilhjálms í þrístökki að þá stendur Íslandsmet hans frá árinu 1960 enn óhaggað, 16,70 m. Eftirlifandi eiginkona Vilhjálms er Gerður Unndórsdóttir. Þau eignuðust sex syni, Rúnar, Einar, Unnar, Garðar, Hjálmar og Sigmar.

Mynd: Óskar Þór Nikulásson / RÚV
Vilhjálmur í íþrótta- og mannlífsþættinum 360 gráðum árið 2012.