Andlát á Húsavík: „Mikilvægt að fólk sýni yfirvegun“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
„Við þurfum að halda ró okkar,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, um andlát sem varð á Húsavík í gær. Þá lést ástralskur ferðamaður um fertugt, sem reyndist smitaður af COVID-19 veirunni. Maðurinn lést stuttu eftir að hann kom á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík, en þangað kom hann vegna alvarlegra veikinda. Dánarorsök liggur ekki fyrir en sjúkdómseinkennin voru ekki dæmigerð fyrir COVID-19, að því er segir í tilkynningu frá almannavörnum.

„Við erum að vinna í einu og öllu eftir okkar viðbragðsáætlun og það gengur mjög vel,“ segir Kristján. „Þótt svona komi upp er mikilvægt að fólk sýni yfirvegun eins og hægt er og við bíðum fregna og tilmæla ef þetta hefur áhrif á okkar plön.“

Kristján segir ljóst að einhverjir starfsmenn á Heilbrigðisstofnuninni fari í sóttkví, og að hugsanlega þurfi að fá starfsmenn annars staðar af landinu til þess að manna stöður þar.

„Ég held að það hafi mátt búast við þessu, sama hvar það myndi gerast. En svona fregnir eru alltaf áfall, óháð þessum faraldri, þegar einhver deyr svona skyndilega,“ segir Kristján sem vill koma á framförum hrósi og þökkum til allra þeirra sem hafa stýrt aðgerðum í faraldrinum.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi