„Ánægður að vera fjandans fógetinn í þessum skítabæ“

Mynd: EPA / EPA

„Ánægður að vera fjandans fógetinn í þessum skítabæ“

13.11.2019 - 14:03

Höfundar

Í kringum síðustu aldamót keypti Disney framleiðslufyrirtækið Miramax. Fyrirtækið var þó enn undir stjórn bræðranna Bobs og Harveys Weinstein sem voru gríðarlega valdamiklir. Einhverju sinni tók Harvey slúðurblaðamann hálstaki fyrir framan ótal ljósmyndara en tókst samt að koma í veg fyrir að það færi í fjölmiðla.

Þetta kemur fram í heimildarmyndinni Untouchable sem fjallar um kynferðisbrot kvikmyndamógúlsins fyrrverandi, Harveys Weinstein, sem hann gat látið viðgangast um áratugaskeið vegna áhrifa sinna í Hollywood. Þar er tekið dæmi af blaðakonunni Rebeccu Traister sem var gerð út af örkinni í veislu til að spyrja Weinstein út í myndina O. Harvey Weinstein kvaðst ekkert hafa með myndina að gera heldur bróðir hans en reiddist mjög þegar hann sá diktafóninn og krafðist þess að Traister notaði það, sem hann sagði, ekki í blaðið. „Hann reyndi að ná af mér diktafóninum, svo ég setti hann á upptöku og beindi honum að honum. Þá varð hann ennþá reiðari.“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Untoucheble
Weinstein kallaði Rebeccu Traister öllum illum nöfnum.

„Stemmningin í herberginu breyttist. Ég sé að það kviknar eitthvað í honum. Svo heyri ég hann öskra eins hátt og hann getur, „hver hleypti þessari tussu í þetta partý?“,“ segir Andrew Goldman slúðurdálkahöfundur sem var í för með Rebeccu. „Hann lét fúkyrðunum rigna yfir mig og alla, „út með þessa tík, hver hleypti henni inn, hvað er hún að gera hérna?““

Traister segir að það sem hafi skelft hana mest hafi verið tilfinningin um að hvað sem er gæti gerst. „Eins og það væru engin samfélagsleg gildi sem myndu tryggja að allt færi vel.“ Goldman gekk svo upp að Harvey og sagði að hann hefði engan rétt á að brúka svona orðfærði við Traister. „Þá kviknaði aftur á honum og hann sagði: „Ég er ánægður að ég er fjandans fógetinn í þessum skítabæ“.“ Um leið áttar hann sig á að Goldman er með diktafóninn á lofti. „Hann byrjar að öskra og ýtir honum niður tvö þrep þannig hann fellur á jörðina. Hann dregur hann svo með sér út á götu og tekur hann haustaki, og byrjar að berja ofan á hausinn á honum,“ segir Traister.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Untoucheble
Harvey Weinstein lét Andrew Goldman finna til tevatnsins í veislunni fyrir framan hóp fólks.

„Mannfjöldi safnaðist saman í kringum okkur, þetta var eins og slagur á skólalóð. Þetta var súrrealískt,“ segir Goldman. „Það er fullt af fólki að taka myndir af þessu, hvaða ritstjóri slúðurblaðs sem er lætur sig dreyma um svona forsíðumynd.“ Traister segir eftirleikinn ekki síður afhjúpandi. „Til þessa dags hef ég ekki séð eina ljósmynd af þessu, samt voru hundruð teknar,“ segir hún. „Ritstjórinn minn, sem ég virði mjög mikils, sagði mér að sleppa því að skrifa um þetta eða tjá mig við fjölmiðla. Hún sagði mér að Harvey væri ekki að fara neitt, hann væri eins og Rússland.“ Goldman segir að þrátt fyrir að línan um fógetann hefði verið frábær fyrirsögn hefði hann samt ekki getað sett hana á prent. „Svona lína virkar bara ef þú ert í alvöru fógetinn. Og hann var það á þessum tíma. Hann gat gert hvað sem er.“

Untouchable er á dagskrá RÚV á miðvikudagskvöld og fjallar um ris og fall Hollywood-framleiðandans Harveys Weinsteins. Rætt er við fólk sem starfaði með honum og konur sem hafa sakað hann um kynferðisbrot. Hátt í hundrað konur hafa sakað Weinstein um að hafa brotið á sér kynferðislega á yfir þrjátíu ára tímabili.