Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ammoníakleki í frystihúsinu á Vopnafirði

31.07.2019 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af ja.is
Ammoníakleki varð í sambyggðu húsi frystihússins og sláturhússins á Vopnafirði. Ammoníak lak þá inn í umbúðageymslu frystihússins frá sláturhúsinu við hliðina. Öll vinnsla í frystihúsinu var stöðvuð. Þar sem lekinn var í umbúðageymslu tók nokkurn tíma að hefja hreinsun því það þurfti að ná öllum umbúðunum út.

Magnús Róbertsson, rekstrarstjóri hjá HB Granda, segir að talið sé að lekann megi rekja til þess að skrúfað hafi verið frá röngum krana í sláturhúsinu. Ekki er vitað hversu lengi ammoníakið lak inn í umbúðageymsluna en húsið var rýmt um leið og lekans varð vart. „Við urðum vör við smá lykt til að byrja með en hún var ekki sterk í byrjun. Við byrjuðum strax að loftræsta út hjá okkur og svo jókst þetta það mikið að við ákváðum að hringja á lögreglu og rýma húsið,“ segir Magnús. „Við þorðum ekki að taka neinn séns fyrir starfsfólkið okkar og þá sem voru þarna inni.“  Engum varð meint af og núna er þess beðið að mesta lyktin fari svo hægt sé að koma vinnslunni aftur í gang.

Umgangast þarf ammoníak með gætni

Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Austurlands, segir að viðbrögð HB Granda hafi verið hárrétt. Mikilvægt sé að rýma húsið og hafa viðbragðsáætlanir í lagi, því ammoníaklekar geta verið hættulegir. „Hættan er mjög mikil ef menn anda þessu að sér, ef þeir lenda í ammoníaksskýi þá geta menn kafnað bara einn, tveir og þrír,“ segir Baldur. „Síðan veldur ammoníakið bruna alls staðar þar sem er raki þannig menn brenna undir höndum og í kringum kynfæri og það er alveg eins með innöndun. Um leið og ammoníakið snertir raka myndast bruni.“ Sendir voru eiturefnagallar frá Egilsstöðum til Vopnafjarðar til að gæta fyllsta öryggis viðbragðsaðila. 

„Ammoníak er hættulegt, menn þurfa að umgangast það með gætni,“ segir Baldur. „Skilaboð mín til allra eru að reyna að hafa viðbragðsáætlanir í lagi þannig að slökkviliðið geti komið og unnið þessi verk en það er í lögum að slökkviliðið eigi að sjá um það.“ Hann segir að allt hafi gengið vel í gær, rýmingaráætlun HB Granda hafi gengið alveg eftir og öll viðbrögð voru rétt. Slökkviliðsmenn séu þjálfaðir í að takast á við svona nokkuð og allt hafi gengið vel hjá slökkviliðinu á Vopnafirði.

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV