Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Amfetamínframleiðendur í sex til sjö ára fangelsi

09.12.2019 - 14:41
Mynd með færslu
Þegar málið var til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þrír menn sem voru ákærðir fyrir stórfellda amfetamínframleiðslu og kannabisrækt voru í dag sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeir fengu samtals nítján ára fangelsisdóma. Alvar Óskarsson hlaut þyngsta dóminn, sjö ár í fangelsi. Einar Einarsson og Margeir Pétur Jóhannsson voru dæmdir í sex ára fangelsi hvor um sig.

Mennirnir neituðu allir sök vegna framleiðslu amfetamíns í sumarbústað í Borgarnesi. Bústaðinn á pabbi Margeirs. Einar neitaði alfarið sök í kannabisframleiðslunni sem fram fór í útihúsi bóndabæjar í Þykkvabæ. Margeir Pétur játaði sök og Einar játaði sök að hluta, hann sagðist hafa verið launaður starfsmaður en neitaði því að hafa staðið að framleiðslunni.

Þrjú önnur höfðu þegar játað sök í kannabisframleiðslunni og fengið innan við ársdóma í fangelsi hvert og eitt. Þeirra á meðal voru íbúarnir á bænum.

Margeir og Alvar tilkynntu strax að þeir áfrýi dómnum. Einar tók sér frest til að ákveða viðbrögð sín við dómnum. Verjandi Alvars bókaði að Alvar lýsti sig saklausan af ákærunni og myndi áfrýja. Margeir var eini sakborningurinn sem mætti í dómsal.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV