Ambáttin sem varð ein valdamesta kona heims

Mynd:  / 

Ambáttin sem varð ein valdamesta kona heims

19.01.2019 - 13:48

Höfundar

Súleiman mikli, soldán tyrkneska Ottómanveldisins á 16. öld, varð svo heillaður af ungri ambátt í kvennabúri sínu að hann fór á svig við allar hefðir og reglur hirðarinnar, giftist henni og eignaðist með henni fjölda barna. Og ambáttin notaði stöðu sína óspart til áhrifa.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um sögu Ottómanveldisins í nokkrum þáttum. Þetta er fjórði þáttur sem hlusta má á hér að ofan.

Fyrsti þáttur var um upphafsár Ottómanveldisins, annar um fall um Konstantínópel 1453 og sá þriðji um landvinninga Tyrkjasoldána á ofanverðri 15. öld og upphafi 16. aldar

Rænt af Tatörum og seld í þrældóm

Súleiman kynntist ambáttinni, sem var kölluð Hurrem eða „hin glaðlynda“ í kvennabúrinu og gjarnan Roxelana í Evrópu, þegar hann var nýtekinn við soldánstign 1520. 

Lítið er vitað um uppruna hennar en talið að hún hafi verið frá Rúþeníu, einhverstaðar þar sem nú er Úkraína, og að hún hafi verið numin á brott ung að aldri af Tatörum frá Krímskaga og seld í þrældóm.

Þannig endaði hún að lokum í kvennabúri soldáns í Istanbúl. 

Soldáninn fór á svig við allar reglur

Vitað er að hún eignaðist fyrsta barn sitt með Súleiman, drenginn Mehmet, 1521.

Venjulega hefði fæðing sonarins bundið enda á samband hennar og soldánsins en þau héldu áfram að hittast og eignuðust saman fleiri börn, alls fjóra syni. 

1534 gekk Súleiman enn lengra og giftist Roxelönu. Hún varð þá óumdeilanlega valdamesta kona Tyrkjaveldis og virðist hafa notað vald sitt og áhrif bæði leynt og óleynt.

Miðað við umfang og umsvif Tyrkjaveldis á valdatíð eiginmanns hennar má því jafnframt að hún hafi vafalítið verið meðal valdamestu kvenna heims á þessum tíma.

Slagsmál í kvennabúrinu

Vegna uppgangs síns í kvennabúrinu lenti hún í erjum við aðra barnsmóður Súleimans, Mahidevran, og segir sagan að hún hafi eitt sinn ráðist á Roxelönu í bræði. 

Roxelana hefur í gegnum söguna fengið á sig ímynd klækjakvendis og er hún meðal annars sögð hafa plottað gegn Mahidevran og syni hennar, og mögulega látið ráða náinn ráðgjafa soldánsins af dögum til að tryggja eigin sonum framgang. 

Sem soldánsfrú vann Roxelana þó einnig ötullega að ýmsum góðgerðarstörfum. Hún lét byggja skóla, gistiheimili og súpueldhús víðsvegar um Tyrkjaveldi og hjálpaði fátækum á ýmsan hátt. 

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.