Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ámælisvert en gættu meðalhófs og fleiri þátta

27.09.2019 - 12:06
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir að meðalhófsregla hafi meðal annars verið til hliðsjónar þegar ríkislögreglustjóri var ekki áminntur vegna bréfasendinga á bréfsefni embættisins. Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur óskað skýringa dómsmálaráðuneytisins á því hvers vegna Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri var ekki áminntur. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að fólk verði meta eigið hæfi og hvort það geti starfað áfram.

Dómsmálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að framsetning Haralds í bréfum til tveggja fjölmiðlamanna hafi verið ámælisvert. Bréfin skrifaði hann á bréfsefni embættisins. Þar gagnrýndi hann umfjöllun um embættið undir sinni stjórn.

„Niðurstaðan í dómsmálaráðuneytinu á sínum tíma var einfaldlega, með tilliti til meðalhófs og annars, að þetta þætti ámælisvert og niðurstaðan var sú að hann var ekki áminntur vegna þessa,“ segir Þórdís Kolbrún. Þar með lauk málinu. Haraldur sendi mönnun síðar bréf á bréfsefni ríkislögreglustjóraembættisins. „Ég vissi af því að hann baðst afsökunar,“ segir Þórdís Kolbrún. „Nei, ég vissi ekki á hvaða bréfsefni það var.“

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

„Ég get ekki tjáð mig um einstaka starfsmannamál. Þessu bréfi verður svarað eins og góðar stjórnsýsluvenjur gera ráð fyrir. Það er í vinnslu í ráðuneytinu,“ segir Áslaug Arna um bréf umboðsmanns Alþingis þar sem hann krefst skýringa á því að Haraldur var ekki áminntur.

„Efnislega er verið að skoða þessar athugasemdir umboðsmanns Alþingis við niðurstöðu dómsmálaráðuneytis. Sú vinna er í skoðun og við munum svara umboðsmanni eins fljótt og auðið er.

Aðspurð hvort hún treystir Haraldi ríkislögreglustjóra svarar Áslaug Arna dómsmálaráðherra ekki beint heldur segir: „Ég treysti ríkislögreglustjóraembættinu, þar er verið að vinna af heilum hug að löggæslu í landinu. Fyrst og fremst er það mitt verkefni að hér sé tryggt öryggi fyrir landsmenn. Ég treysti því að það sé gert.“

Getur lögregla sinnt störfum sínum við þessar aðstæður?

„Það er á hennar ábyrgð og hún hefur sýnt það að þetta hefur ekki haft ábyrgð á hennar störf. Það er mikilvægt að við tryggjum það. Síðan verður fólk að meta sitt eigið hæfi og hvort að það telji sig geta gegnt því embætti sem það sinnir.“