Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Alvöru rokksveitir, þær borða hjónabandssælu“

Mynd: Havarí / RÚV

„Alvöru rokksveitir, þær borða hjónabandssælu“

18.06.2019 - 15:47

Höfundar

Reggísveitin Hjálmar hefur verið á faraldsfæti undanfarið en þeir eru á sinni fyrstu hringferð um landið um þessar mundir. Hjálmar opnuðu veglega sumardagskrá í Havarí í Berufirði á dögunum og þáðu þar hjónabandssælu.

Á Karlsstöðum í Berufirði halda þau hjónin Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson úti menningarmiðstöðinni Havarí, sem er allt í senn tónleikastaður, veitingahús, gistiheimili og sveitasnakkframleiðsla. Undanfarin ár hefur Havarí boðið upp á metnaðarfulla sumardagskrá og í ár verður þar engin undantekning á. Þar koma fram í sumar Mr. Silla, FM Belfast, Geirfuglarnir, Prins Póló og fjölbragðasýningin Búkalú kemur í heimsókn.

Hjálmar hleyptu Sumrinu í Havarí af stokkunum á laugardaginn og mætti segja að reggísvitinn hafi lekið niður veggina á gömlu hlöðunni á Karlsstöðum sem ný hýsir hið stórglæsilega tónleikarými Havarí. Berglind og Svavar, húsráðendur í Havarí, náðu smá tali af liðsmönnum Hjálma á bæjarhlaðinu sem og yfir gæðakaffi og hjónabandssælu.

Mynd með færslu
 Mynd: Havarí - RÚV
Hjálmar skemmtu í Havarí í Berufirði.

„Alvöru rokkhljómsveitir, þær borða hjónabandssælu,“ segir Þorsteinn Einarsson söngvari Hjálma sem gæddi sér á sælu með rjóma á kaffihúsi Havarí. „Þetta er eina hjónabandssælan sem ég fæ að njóta, ég er búinn að klúðra öllum hinum. Svona er þetta, bransinn maður. Þetta hefur tekið allt frá mér, músikin“ segir Þorsteinn.

Berglind settist niður í grasið við Karlsstaði og spurði hrynparið Helga og Valda um reggíáhugann. „Við Valdi spiluðum mikinn djass saman, vorum saman í tríói og deildum hljóðveri,“ segir trommarinn Helgi Svavar og á þá við bassaleikarann Valdimar Kolbein félaga sinn en þeir Valdi og Helgi eru einnig í tríóinu Flís. „Á þessum tímum fórum við að hafa áhuga á reggítónlist, hlustuðum mikið á dub og reggítónlist sem var þá flutt af bandarískum djasstónlistarmönnum. Þeir voru þá að endurhljóðblanda, endurvinna reggítónlist og gera svokallað dub. Við vorum svolítið djúpt sokknir í það. Okkur fannst það spennandi hljóðheimur,“ segir Helgi Svavar.

Berglind vildi gjarnan forvitnast um hvernig lögin verða til, hvort þeir ættu mikil samtöl utan hljóðversins og sinntu mikilli forvinnu. „Nei, við tölum ekki mikið saman. Því ef við tölum mikið saman, þá verður allt svo mikill misskilningur. En ef við tölum ekkert saman þá misskiljum við hvern annan í tónlistinni, þá kemur svona góður misskilningur,“ segir bassaleikarinn Valdi Kolli og útskýrir hvernig tónlist Hjálma verður til. Þetta er mögulega allt misskilningur, góður misskilningur.

Viðtal Havaríhjóna við liðsmenn Hjálma má sjá í spilaranum hér að ofan. Allar upplýsingar um sumardagskrá menningaróðalsins Havarí má finna hér.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Aðflugan á það til að setjast að“

Tónlist

„Ég er hérna svona af og til“

Popptónlist

Reggí gott af Reykjanesi

Popptónlist

Havarí tilkynnir sumardagskrána