Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Álverin greiða nærri milljarð í fasteignagjöld

Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Álverin á Íslandi greiða nærri milljarð í fasteignagjöld í ár. Álverið á Reyðarfirði greiðir meira en helming allra fasteignagjalda Fjarðabyggðar. Fasteignamat álversins er hundrað milljarðar samkvæmt Þjóðskrá, en er skráð þar sem 0,0 fermetrar að stærð. Tónlistarhúsið Harpa greiðir hærri fasteignagjöld en álverið í Straumsvík.

Á Íslandi eru rekin þrjú álver: í Straumsvík í Hafnarfirði, á Reyðarfirði og á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Þetta eru allt stórar og miklar byggingar, með þeim stærstu á landinu. Almennt greiða eigendur atvinnuhúsnæðis fasteignagjöld sem eru 1,65 prósent af fasteignamati, en stundum eru gerðar á því undanþágur. 

Metið á yfir 100 milljarða en skráð sem 0,0 fermetrar

Byggingar Rinto Tinto í Straumsvík eru alls 212.000 fermetrar. Fasteignamat bygginganna er nú 15,5 milljarðar króna og verður 16,4 árið 2020. Álver Norðuráls á Grundartanga er 198.000 fermetrar og metið á 14,3 milljarða. Það hækkar í 17 milljarða á næsta ári. Álver Alcoa á Reyðarfirði sker sig úr, enda voru sett sérstök lög á Alþingi um verksmiðjuna á sínum tíma. Álverið er skráð 0,0 fermetrar, en fasteignamatið er 95,5 milljarðar. Þetta gerir álverið á Reyðarfirði líklega eina verðmætustu byggingu á landinu. Það verður 103 milljarða virði á næsta ári. 

Segja samning Alcoa trúnaðarmál

Í svari Þjóðskrár við fyrirspurn fréttastofu segir að matsverðið sé ákveðið út frá byggingarkostnaði álversins 2009, þá rúmir 70 milljarðar, sem hefur í dag hækkað um 25 milljarða. Þjóðskrá gat ekki svarað hversu háa fasteignaskatta álverið greiddi Fjarðabyggð, þar sem samningur milli ríkisins og Alcoa Fjarðaráls, sé trúnaðarmál og þjóðskrá hafi ekki séð hann.  

Meira en helmingur allra fasteignagjalda Fjarðabyggðar

Fréttastofa sendi fyrirspurn til sveitarfélaganna þriggja: Hafnarfjarðar, Fjarðabyggðar og Hvalfjarðarsveitar, um gjöld sem álverin greiða. 

Alcoa greiddi Fjarðabyggð 418 milljónir í fasteignagjöld 2018. Það er meira en helmingur allra fasteignagjalda sveitarfélagsins, sem voru 780 milljónir. Á þessu ári greiðir fyrirtækið 440 milljónir. 

Rio Tinto greiddi Hafnarfirði 299 milljónir í fasteignagjöld 2018, sem gera tíu prósent af öllum fasteignagjöldum Hafnarfjarðar, sem voru 3,3 milljarðar. Á þessu ári greiðir fyrirtækið 294 milljónir. Engin sérákvæði eru lengur í gildi. 

Hvalfjarðarsveit neitar að svara

Hvalfjarðarsveit neitaði að svara á þeim forsendum að upplýsingarnar gætu varðað hagsmuni Norðuráls. Fréttastofa hefur kært svarið til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Þó segir sveitarfélagið að Norðurál hafi greitt fasteignagjöld samkvæmt sérstöku fyrirkomulagi síðan 1997, en sá samningur hafi runnið út í lok október í fyrra. Nú eru gjöldin greidd samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Það ætti þá að vera um það bil 240 milljónir í ár og 280 milljónir á næsta ári. 

Harpa borgar meira en Rio Tinto

Tónlistarhúsið Harpa greiðir hærri fasteignagjöld en álverið í Straumsvík, sem er jafn stórt og sjö Hörpur. Smáralind ehf. greiðir hærri gjöld en álverið á Grundartanga. 

Harpa er 30.000 fermetrar, 42.000 með bílakjallaranum. Verslunarmiðstöðin Smáralind er rúmir 64.000 fermetrar. Báðar byggingarnar eru metnar á tæpa 18 milljarða 2020. Það er ekki eingöngu fermetrafjöldi sem ræður fasteignamati. Harpa, sem er í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar, greiddi 267 milljónir í fasteignagjöld í fyrra og 308 milljónir í ár. Smáralind ehf. greiddi Kópavogsbæ 285 milljónir í fyrra og 275 milljónir í ár.