Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Alveg ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ljóst að ferðabann sem Bandaríkjaforseti setti á í gærkvöldi, muni hafa mikil áhrif á flug til og frá landinu. Hún segir að ferðabannið auki á þær þrengingar sem íslenskt efnahagslíf þarf að komast í gegnum, en hún segir jafnframt að þær þrengingar verði tímabundnar.

„Íslensk stjórnvöld hafa þegar komið á framfæri mótmælum vegna þessarar ákvörðunar sem skall á okkur fyrirvarlaust í gær,“ sagi Katrín í samtali við fréttastofu klukkan rúmlega 11 í morgun. „Það er alveg ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif á flug til og frá landinu. Þannig að við höfum komið á framfæri mótmælum. Utanríkisráðherra hefur haft samband við sendiherra Bandaríkjanna hér á landi og rætt við staðgengil hans á fundi. Við höfum óskað eftir því að utanríkismálanefnd verði kölluð saman til þess að fara yfir þessa stöðu. Þannig að þessum mótmælum hefur verið komið á framfæri en við erum síðan að fara yfir afleiðingar þessarar ákvörðunar Trumps á íslenskt efnahagslíf og munum verða í því í dag.“

Hafið þið rætt við Icelandair og ferðaþjónustuna?

„Við munum að sjálfsögðu ræða við þau í dag. Þau eru að fara yfir sínar áætlanir í ljósi þessarar óvæntu ákvörðunar. Þannig að dagurinn mun fara í þetta.“

Stöndum vel

Kemur til greina að grípa til einhverra frekari aðgerða en þið boðuðuð til á þriðjudaginn?

„Eins og við sögðum á þriðjudaginn, þá voru það fyrstu aðgerðir. Þannig að það var fyrirsjáanlegt að það yrðu fleiri aðgerðir. Atburðið næturinnar kalla augljóslega á það.“

Nú breytir þetta öllum forsendum í efnahagskerfinu, hvað eruð þið að fara að ræða á ríkisstjórnarfundi? Eruð þið að fara yfir einhverjar aðgerðir vegna þessa sérstaklega?

„Við erum í rauninni að fara yfir afleiðingar þessarar tilteknu ákvörðunar Bandaríkjanna fyrir íslenskt efnahagslíf og hvað mun þurfa að gera.  Eins og ég hef margítrekað sagt þá stöndum við mjög vel til að takast á við þetta en eðli málsins samkvæmt eykur þetta þær þrengingar sem við munum þurfa að komast í gegnum. En sem betur fer verða þær tímabundnar.“

Verður eitthvað tilkynnt eftir þennan ríkisstjórnarfund?

„Þessu mun nú bara vinda fram eftir degi. Við verðum bara að sjá til með það,“ segir Katrín.