„Alveg fráleitt“ að smitað fólk hafi verið flutt inn

19.03.2020 - 10:13
Mynd: Skjáskot / RÚV
„Þetta er alveg fráleitt. Að við höfum verið að flytja inn eitthvað smitað fólk,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, í sérstökum þætti um COVID-19 faraldurinn í sjónvarpinu í gærkvöldi.

Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi Alþingismaður, sakaði almannavarnir og sóttvarnarlæknir um að hafa flutt inn smitaða einstaklinga hingað til lands. Þetta sagði Frosti í útvarpsþætti í gærmorgun. „Það er náttúrlega enginn fótur fyrir því,“ sagði Alma Möller landlæknir í þættinum.

„Eins og ég sagði áðan: Þeir sem komu með þessa veiru til Íslands eru Íslendingar sem komu að utan. Við fórum mjög vel í gegnum þessa umræðu í febrúar hvort það ætti að loka landinu og loka landamærunum, eins og þið kannski munið.“

„Það yrði til að hafa okkur hérna í einangrun og forða því að þetta kæmi hingað inn,“ segir Víðir. „Við fórum í gegnum þau rök. Sóttvarnarlæknir og aðrir sögðu að við þyrftum þá að vera lokuð hér í á annað ár og hugsanlega mundi það ekki duga. Það eru kenningar um að ef þú nærð að stoppa 90-99 prósent af streyminu inn þá mundirðu samt fá svona veiru inn.“

„En það er fráleitt að við höfum verið að flytja inn fólk til að fá svona veiru inn,“ segir Víðir.

„Það er auðvitað raðgreining á veirunni sem er verið að gera hjá Íslenskri erfðagreiningu. Og þar sést að lang flestar veirurnar eru að koma þarna frá Ítalíu. Það bara staðfestir það sem Víðir er að segja,“ sagði Alma.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi