Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alvarlegur matarskortur í Norður Kóreu

04.05.2019 - 02:27
epa05280737 A picture made available on 28 April 2016 shows a large mosaic representing former leaders Kim Il-sung (R) and Kim Jong-il near Pyongyang airport, North Korea, 18 April 2016. Founded in 1959, the Mansudae Art Studio is the largest art
Veggmynd nærri flugvellinum í Pjongjang af landsfeðrunum og fyrrverandi leiðtogum Norður-Kóreu, feðgunum Kim Jong-il og Kim Il-sung. Mynd: EPA
Uppskera hefur ekki verið minni á ökrum Norður Kóreu í áratug eða meira og hungur blasir við norður-kóresku þjóðinni að óbreyttu. Þetta er niðurstaða sérfræðiga Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). Áætlað er að fjórir af hverjum tíu íbúum landins búi við viðvarandi matarskort og að hann eigi enn eftir að aukast vegna uppskerubrestsins.

Stjórnvöld í Pjongjang hafa um árabil reitt sig á matvælaaðstoð frá Sameinuðu þjóðunum og sú er enn raunin. Um 10 milljónir af þeim 25 milljónum sem byggja Norður Kóreu treysta alfarið á matarskammta frá hinu opinbera. Þeir eru nú 300 grömm á dag á mann og hafa aldrei verið minni á þessum tíma árs segir í skýrslu sérfræðinganna, sem byggð er á tveimur ferðum þeirra til landsins, fyrst í nóvember í fyrra og svo aftur í apríl á þessu ári.

Fram kemur að þessar 10 milljónir búi við mikið matvælaóöryggi, „sem þýðir að þau eiga ekki nógan mat til að duga þeim fram að næstu uppskeru," segir talsmaður Matvælaáætlunarinnar, Herve Verhoosel. Hann segir ekki rétt að tala um hungursneyð í Norður Kóreu enn sem komið er, en ástandið sé mjög alvarlegt og vel geti komið til hungursneyðar þar innan fárra ára eða jafnvel mánaða. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV