Alvarlegt ef verkfallið dregst á langinn

03.02.2020 - 19:44
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Það er grafalvarlegt mál ef verkföll Eflingar dragast á langinn, að sögn Bjarna Brynjólfssonar, upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar. 1.800 starfsmenn Eflingar hjá Reykjavíkurborg leggja niður störf á morgun og verður veruleg röskun á starfsemi leikskóla. 3.500 börn verða send heim í hádeginu, ekki verður boðið upp á mat í grunnskólum og starfsmenn sorphirðu fara einnig í verkfall.

Bjarni segir að hitinn og þunginn af undirbúningi fyrir verkföllin hafi verið hjá skólastjórnendum sem hafa metið hvernig eigi að bregðast við. Verið er að senda tölvupóst til foreldra og forráðamanna. 

Verkfallið hefur einhver áhrif á starfsemi grunnskólanna en þó ekki mikil, að sögn Bjarna. Ekki verður boðið upp á hádegismat og því þurfa börn að taka með sér nesti að heiman. „Frístundaheimilin verða opin og þjónusta þeirra verður ekki skert að neinu leyti, svo ég viti til,“ sagði hann í viðtali við Magnús Geir Eyjólfsson, fréttamann, í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.  

Sorphirðufólk leggur niður störf. Munu borgarbúar finna fyrir því? „Það gæti gerst já, ef verkfallið dregst á langinn en á svona hálfum og heilum dögum, eins og eru framundan í verkfalli, þá mun það kannski ekki koma mjög svo niður á þjónustunni því að þeir munu vinna það upp á milli en auðvitað er það mjög alvarlegt mál ef þetta verkfall dregst á langinn og það fer að safnast upp sorp sem getur hæglega gerst ef það dregst á langinn.“ 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi