Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin leggjast gegn virkjun

04.02.2020 - 11:33
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Alþjóðanefnd um friðlýst svæði innan Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN telur að vernda eigi víðerni við Drangajökul á norðanverðum Vestfjörðum. Ísland á aðild að samtökunum.

Vernd svæðsins sé mikilvæg í alþjóðlegu og innlendu samhengi þar sem það er eitt af örfáum heildstæðum óbyggðum víðernum í Evrópu. Í skýrslu um málið er svæðið sagt búa yfir einstökum jarðminjum, ótal stöðuvötnum og mörgum fögrum fossum.

Telur að skýrslan ætti að breyta miklu

Nefndin telur að fyrirhuguð Hvalárvirkjun breyti vatnafari og náttúru á víðernum Drangajökuls til frambúðar og dragi verulega úr náttúruverndargildi þess. Landvernd á aðild að Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN, sem og Umhverfis - og auðlindaráðuneytið. 

„Þessi skýrsla breytir mjög miklu því þetta sýnir frá mjög traustum og reyndum aðila hvað svæðið er verðmætt í íslensku og alþjóðlegu samhengi,“ segir Auður Anna Magnúsdóttir, formaður Landverndar. 

Árið 2017 skilaði Skipulagsstofnun umhverfismati fyrir svæðið. Það var neikvætt í sjö flokkum af níu, og í einum var óvissa. Niðurstöður Alþjóðanáttúruverndunarstofnunarinnar eru í samræmi við tillögur Náttúrufræðistofnunnar Íslands um svæði á náttúruminjaskrá. Niðurstöðurnar eru þó ekki  bindandi fyrir þjóðríki svo lagaleg áhrif skýrslunnar eru engin. 

„En þetta er mjög sterkt plagg sem sýnir að niðurstaða Náttúrufræðistofunnar var rétt,“ segir Auður. 

„Þetta ætti að breyta mjög miklu en við vitum að framkvæmdaðaðilinn, Vesturverk, og Árneshreppur hafa ekki látið það sig miklu skipta þó að umhverfisstofnun hafi lagt til að svæðið yrði friðlýst og að niðurstaðan úr umhverfismatinu hafi verið mjög neikvæð,“ segir hún.

Umdeildar framkvæmdir 

Árneshreppur gaf út framkvæmdaleyfi og hafist var handa við framkvæmdir vegna undirbúningsvinnu við Hvalárvirkjun síðasta sumar. Vesturverk sér um framkvæmdina og boðar bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum. Gert er ráð fyrir að fara í umfangsmiklar vegaframkvæmdir á svæðinu, reisa fimm stíflur, fjögur lón og grafa skurði og göng. 

Skiptar skoðanir eru um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á svæðinu. Meðal annars hafa landeigendur á svæðinu lagt fram kærur til úrskurðanefndar umhverfis - og auðlindamála vegna framkvæmda í tengslum við virkjunina.