Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alþjóðleg lögsaga varðar mútur og spillingu

13.11.2019 - 20:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Ingadóttir, sérfræðingur í alþjóðlegum refsirétti, segir að víð lögsaga sé hér á landi um mútur og spillingu. Alþjóðleg lögsaga taki til slíkra glæpa hvar sem þeir séu framdir og af hverjum.

Hér má horfa á Kastljós í heild. 

Er mögulegt að stjórnvöld í Namibíu geti sótt Samherjamenn hér til saka? „Þeir geta sótt þá til saka í sínu landi, alveg eins og við getum sótt erlenda ríkisborgara sem hafa framið glæpi í íslenskri lögsögu þá getur Namibía saksótt erlenda ríkisborgara sem fremja glæpi í þeirra lögsögu.“

Myndum við framselja slíka menn? Þórdís segir að Ísland og Namibía séu aðilar að ítarlegum alþjóðlegum samningum gegn spillingu. „Samkvæmt íslenskum framsalslögum þá erum við ekki í því að framselja íslenska ríkisborgara. En í þessum síðastnefnda samningi ef Namibía, eða annað ríki sem á aðild að þeim samningi, fer fram á framsal okkar ríkisborgara og við neitum því á grundvelli ríkisborgararéttar, þá erum við skyldug gagnvart því ríi til að þess að rannsaka málið. Þannig að það er eftirlit þar til þess að þessi mál detti ekki dauð niður.“

Eftirlitsstofnanir séu komnar af stað í rannsókn málsins. Eftirlitsnefndir fylgist einnig náið með slíkum málum og hvernig þeim framvindur. „Ísland þarf að skila skýrslum til þeirra og þessar nefndir koma hingað til lands reglulega til þess að fylgja málum svo allt þetta regluverk er að kvikna sem við erum löngu orðin aðili að og fylgja þessum samningum.“

Þannig að þessir samningar sem íslensk stjórnvöld hafa innleitt hér í íslenskan rétt, það er fylgst með því af hálfu þessara alþjóða stofnana að við fylgjum þeim og meðhöndla þá rétt þannig að réttarkerfið virki? „Algjörlega. Og þegar kemur að mútum til erlendra embættismanna þá er það á vegum Evrópuráðsins, við erum aðilar að samtökum ríkja þar gegn spillingu, Greco. Það er mjög virk nefnd hjá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu og á vegum Sameinuðu þjóðanna varðandi spillingarsamninginn þar. Þannig að það er í rauninni mjög virkt kerfi að fara af stað.