Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Alþingi þarf rökstuðning frá dómsmálaráðherra

30.05.2017 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Prófessor í stjórnskipunarrétti segir að dómsmálaráðherra þurfi að leggja fullnægjandi rökstuðning fyrir Alþing fyrir því að víkja frá áliti dómnefnar um hæfni umsækjenda um embætti landsréttardómara.  Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur fjallað um Landsrétt í allan dag.

Samkvæmt lögum leggur ráðherra fyrir Alþingi nöfn hvers þeirra fimmtán sem skipa eiga dóminn, til samþykktar eða synjunar. Dómnefnd tilgreindi fimmtán af þrjátíu og þremur umsækjendum, hæfasta til að setjast í dóminn. Hver þeirra fimmtán séu hæfari en hin átján.  

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sendi þinginu í gær lista með fimmtán nöfnum, og hafði þá fellt fjögur nöfn af listanum en sett fjögur ný í staðinn. Hún segir að sú breyting skýrist fyrst og fremst af því að hún telur reynslu af dómarastörfum ekki hafi fengið fullnægjandi vægi hjá dómnefndinni.

Um þá gjörð ráðherrans og skýringar er deilt. Í svari formanns nefndarinnar við fyrirspurnum ráðherra í gær kemur fram að matsreglur nefndarinnar hafi verið óbreyttar um árabil. Nefndin hafi rætt saman og ákveðið að tilgreina þá fimmtán sem hæfastir væru en ekki til dæmis tuttugu. Slíkt gæti leitt til þess að sá í tuttugasta sæti gæti rutt úr vegi umsækjanda, sem lenti í fimmta eða tíunda sæti. Slíkt samrýmist illa markmiðum um sjálfstæði dómstóla. Þá hafi nefndin ekki metið hæfni með tilliti til kynferðis umsækjenda. Slíkt viðmið kunni að eiga við í sumum tilvikum en ekki í þessu.  

Fyrir Alþingi liggur að taka afstöðu til þess hverjir 15 eiga að verða Landsréttardómarar. Björg Thorarensen prófessor er ein þeirra sem mætti fyrir þingnefndina í dag. „Þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þessa fjóra umsækjendur sem voru ekki metnir hæfastir hjá nefndinni um hæfni umsækjanda, veður þingið að taka afstöðu til þess og kanna hvort ráðherra hafi rannsakað með nægilega vönduðum og ítarlegum hætti af hverju hún víkur frá niðurstöðu nefndarinnar. Þingið verður að fá fullnægjandi gögn um það að ráðherra hafi rannsakað þetta mál til hlítar þannig að það sé tryggt að þetta nýja mat sé byggt á málefnalegum sjónarmiðum um hæfni umsækjenda,“ sagði Björg í samtali við fréttastofu.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ræðir málið áfram í kvöld. 

 

Broddi Broddason
Fréttastofa RÚV