Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Alþingi þarf 40 milljónir vegna málþófs og yfirvinnu

11.11.2019 - 08:52
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Alþingi á engan varasjóð til að bregðast við óvæntum kostnaði upp á tugi milljóna og vantar því 40 milljónir vegna mikillar viðveru starfsmanna þingsins á vordögum. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem dreift var á Alþingi um helgina.

Í frumvarpinu kemur fram að óvenju mikið annríki hafi verið á Alþingi á þessum tíma en þá stóðu umræður um orkupakka 3 sem hæst.

Í áætlunum þingsins sé gert ráð fyrir miklu álagi á þessum tíma en á yfirstandandi ári hafi það verið óvenju mikið og varað vikum saman. „Ástæðurnar voru málþóf í þingsalnum og mörg, umfangsmikil og þung mál sem sinna þurfti á nefndasviði,“ segir í frumvarpinu.

Þar kemur einnig fram að yfirvinna þeirra sem unnu í tengslum við þingsalinn hafi verið tvöfalt meiri en vanalegt og álíka mikið hjá nefndarsviði. „Þá var ekki nægur fjöldi starfsmanna til að sinna allri þessari vinnu án þess að kæmi til hvíldartímabrota sem einnig skapaði aukinn kostnað.“ Þessar aðstæður hafi verið ófyrirsjáanlegar.

Fram kom í fréttum RÚV að starfsfólk Alþingis hefði unnið 3.000 yfirvinnutíma vegna þriðja orkupakkans en önnur umræða um málið var sú lengsta í sögu Alþingis. Fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis sagði málþófið hafa verið þrúgandi fyrir starfsfólk þingsins.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV