Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alþingi sé búið að klúðra málunum

18.05.2019 - 18:23
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Fyrirkomulag við siðareglur Alþingis er klúður frá upphafi til enda, segir Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Álit siðanefndar sem birtist í gær hefur vakið hörð viðbrögð. Helga segir ljóst að endurskoða þurfi hvernig tekið sé á brotum af þessu tagi.

Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hafi brotið siðareglur með ummælum um Ásmund Friðriksson í Silfrinu í febrúar. 

Siðanefndin segir að aðdróttanir Þórhildar um refsiverða háttsemi skaði ímynd Alþingis. Niðurstaðan hefur verið gagnrýnd um helgina. Jón Ólafsson, formaður starfshóps um eflingu trausts á Alþingi segir orðalag túlkað einstrengingslega. Landssamband Framsóknarkvenna telur niðurstöðuna bera vott um þöggunartilburði og fordæmir hana. Þingmenn Vinstri Grænna, Samfylkingar og Pírata vilja endurskoða aðkomu forsætisnefndar að siðareglubrotum. 

Helga Vala tekur undir það. „Já alveg klárt. Mig grunar að það dragi til tíðinda á næstu dögum hvað næstu skref varðar, ég held við séum sammála því og mig grunar að forseti alþingis sé líka sammála því að við séum einhvern veginn alveg búin að klúðra þessu.“

Helga Vala segir að Alþingi þurfi aðstoð við að taka á svona málum. Nefnt hafi verið að fá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu að málunum. Helga nefnir nýlegt mál sem kom upp í Noregi. „Norska stórþingið var að kljást við svipað. Þar var þingmaður sem var með 400 kílómetra akstur óútskýrðan. Norska stórþingið fór þá leið að vísa málinu beint til lögreglu. Við förum þessa leið að segja að þetta sé allt fullkomlega eðlilegt að aka 50 þúsund kílómetra á einu ári, það eru 140 kílómetrar á dag, hvernig dag allan ársins hring. Ég veit það ekki, hvað finnst fólki?“

Hún segir að það hafi ekki komið til tals að flokkurinn eða hún sjálf vísi þessu til lögreglu. Hún segir það þó alveg með ólíkindum, eftir allt sem á undan hafi gengið sé Þórhildur Sunna fyrsti þingmaðurinn sem teljist brotlegur við siðareglur.

Til að efla traust almennings og þingmanna þurfi að loka á aðkomu forsætisnefndar að þeim. „Mér finnst vont þegar pólitískt kjörnir fulltrúar eru að vasast í því hvort að mál fái að fara fyrir siðanefnd eða ekki, það er fyrsti feillinn í þessu öllu, og mér finnst líka að forsætisnefnd eigi ekki að fá að vera svo úrskurðaraðilinn í lokinn, bara alls ekki. Þar er þetta aftur komið í það að vinnufélagar eru að úrskurða í málum kollega, vinar og stundum náins vinar. Það gengur ekki, alls ekki að mínu mati. Þetta er pínulítill vinnustaður. “ segir Helga Vala. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV