Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alþingi samþykkti COVID-19 frumvarp Bjarna

13.03.2020 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Alþingi samþykkti síðdegis lagafrumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að fyrirtæki geti frestað greiðslu á hluta staðgreiðslu og tryggingagjalds. Frumvarpið var samþykkt með 47 samhljóða atkvæðum. Sextán þingmenn voru fjarverandi.

Bjarni mælti fyrir frumvarpinu á þingfundi sem var boðaður klukkan ellefu í morgun til að afgreiða þetta eina mál. Alþingi samþykkti að taka málið fyrir með afbrigðum vegna þess hversu stutt er liðið síðan frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Nýju lögin þýða að gjalddagi á staðgreiðslu og tryggingagjaldi fyrirtækja frestast frá mánudeginum næstkomandi til 15. apríl. Þetta er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við efnahagslegum áhrifum COVID-19 veirunnar.

Lagasetningin þýðir að fyrirtæki landsins geta frestað greiðslu upp á allt að 22 milljarða króna samanlagt. Bjarni sagði á þingfundi í morgun að frestun greiðslna gæti hjálpað mörgum fyrirtækjum en hvatti líka þau fyrirtæki sem ekki þurfa á greiðslufresti að halda til að standa skil á sínu.