Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Alþingi og ríkisstjórn hunsi vilja þjóðarinnar

07.12.2019 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚV
Ísland er undir meðaltali OECD-ríkja þegar kemur að heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustu. Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir niðurstöðuna dapurlega úttekt á starfi þeirra sem stjórna landinu.

Samkvæmt nýrri skýrslu OECD ver Ísland 8,3 prósent af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála, en meðaltal OECD ríkja er 8,8 prósent. 21 ríki OECD ver hærra hlutfalli til heilbrigðismála en Ísland, þar með talið öll Norðurlöndin. Í Svíþjóð er hlutfallið 11 prósent, 10,5 prósent í Danmörku, 10,2 prósent í Noregi og 9,1 í Finnlandi.

Flaggskipið komið að fótum fram

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, efndi til undirskriftasöfnunar árið 2016, þar sem skorað var á stjórnvöld að verja sem nemur 11 prósent af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála. Um 85 þúsund manns skrifuðu undir áskorunina. Kári segir þetta sýna að Alþingi og ríkisstjórn veigri sér ekki við að hunsa vilja þjóðarinnar.

„Nú kemur í ljós að þremur árum síðar að við erum að nota 8,3 prósent af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál meðan flaggskip heilbrigðiskerfisins, Landspítalinn, er kominn að fótum fram, getur ekki sinnt sínu hlutverki almennilega. Og það er athyglisvert að þetta gerist á sama tíma og grunnskólakerfið virðist vera komið að fótum fram líka,“ segir Kári og vísar í niðurstöður Pisa könnunarinnar sem kynntar voru í vikunni.

Óásættanlegt í auðugu landi

Kári segir 11 prósenta markið vera yfirlýsingu um að þjóðin vilji leggja til meira fjármagn til heilbrigðismála, meðal annars svo hægt verði að manna Landspítalann betur, hafa hann betur tækjum búinn og að almenningur hafi aðgang að bestu mögulegum lyfjum. „Þetta er að gerast í lokin á einhverju mesta uppgangstíma í íslensku efnahagslífi sem við höfum nokkurn tíma átt. Það er heldur dapurleg úttekt á starfi þeirra sem eru að stjórna landinu. Og þetta er gjörsamlega óásættanlegt í því auðuga landi sem við búum í.“

 

Magnús Geir Eyjólfsson